Madonna leikstýrir eigin ævisögu

Hin fjölhæfa Madonna kemur til með að leikstýra nýrri kvikmynd sem byggð er á ævi poppstjörnunnar stórvinsælu. Það er kvikmyndaverið Universal sem framleiðir en söngkonan segir í yfirlýsingu að enginn annar sé betur til þess fallinn að stýra þessu verkefni en hún sjálf. Jafnframt segir hún að tónlistin verði aðaláherslan í myndinni og drifkraftur í gegnum hana.

„Ég vil koma því til skila hvað mitt líf sem listakona hefur verið mikið ævintýri, sem tónlistarkona, dansari, manneskja sem er að reyna að finna leið sína í þessum heimi,“ sagði Madonna í yfirlýsingunni. 

„Það er nauðsynlegt að deila þessum rússíbana sem líf mitt hefur verið, með minni rödd og sýn.“

Ekki er enn komið formlegt nafn á kvikmyndina en Madonna skrifar handritið ásamt höfundinum Diablo Cody, sem er hvað þekktust fyrir kvikmyndirnar Juno, Young Adult, Tully og sjónvarpsþættina United States of Tara.  

Fer­ill Madonnu hófst á níunda ára­tugn­um og reis hún hratt upp á stjörnu­him­in­inn og hefur selt rúmlega 335 milljónir platna. Hún er talin á meðal 100 mestu áhrifa­valda tísku­sög­unn­ar og hef­ur unnið til fjölda verðlauna á glæst­um ferli sín­um, þar á meðal sjö Grammy verðlaun.

Madonna á einnig langan feril að baki í kvikmyndum allt frá því hún lék í Desperately Seeking Susan árið 1985. Hún hlaut Golden Globe verðlaunin fyrir aðalhlutverkið í söngleiknum Evita árið 1996. Hún hefur áður leikstýrt kvikmyndum í fullri lengd og einni stuttmynd.