Sér eftir hlutverki Bond-stúlkunnar

Breska leikkonan Gemma Arterton ber ekki hlýjan hug til ákvörðun sinnar um að gerast svonefnd Bond-stúlka í hasarmyndinni Quantum of Solace. Myndin var gefin út árið 2008 – við mikla aðsókn en dræmar viðtökur – og fór þar Arterton með hlutverk MI6 njósnarans Strawberry Fields, persónu sem leikkonan segir hafa litlum tilgangi þjónað í sögunni.

Skemmst er þó að segja frá því að Fields aðstoðar James Bond, fræga njósnara hennar hátignar, á meðan verkefni í breska sendiráðinu í Bólivíu. Þá sængar hún Bond á meðan þeirri atburðarás stendur og finnst skömmu síðar látin, allsnakin og þakin olíu.

Sena þessi er tilvísun í fræga atriði myndarinnar Goldfinger en Arterton tjáði sig á dögunum í viðtali við slúðurmiðilinn The Sun og segist sjá eftir því að hafa þegið þetta hlutverk. Hafi ákvörðunin eingöngu verið af fjárhagsástæðum en leikkonan kveðst almennt ekki vera hrifin af þeirri hlutgervingu sem fylgir Bond-stúlkum og táknmynd þeirra.

„Á þeim tíma var ég fátækari en mús í kirkju og ég var ánægð að geta fengið einhverja vinnu. Ég finn enn fyrir gagnrýni fyrir að leika í Quantum of Solace, en ég var 21 árs og með námslán. Auk þess þótti mér það spennandi tækifæri að leika í Bond-mynd,“ segir Arterton í viðtalinu.

„Með aldrinum áttaði ég mig á því hversu margt er á gráu svæði varðandi konur í Bond-myndum.“

Arterton segist ekki hafa horft á myndina síðan hún var frumsýnd og man lítið eftir henni. Hún undirstrikar þó að Strawberry persónan hafi hvorki fengið baksögu né neitt að gera af viti í atburðarásinni.

„Ég myndi ekki þiggja svona hlutverk í dag,“ bætir hún við.

Eins og gefið var til kynna að ofan er Quantum of Solace sjaldan nefnd í hópi betri kvikmyndanna um Bond. Myndu jafnvel hörðustu aðdáendur hennar færa rök fyrir að persónan Strawberry Fields hafi ekki verið upp á marga fiska.

Myndinni var leikstýrt af Marc Forster og var þetta annað skipti þar sem Daniel Craig fór með hlutverk njósnarans fræga. Auk þeirra Craig og Arterton fóru þau Olga Kurylenko, Mathieu Amalric, Judi Dench og Jeffrey Wright með helstu hlutverk í myndinni.

Arterton hefur annars komið víða við á ferli sínum og vann nýverið að sjónvarpsþáttunum Black Narcissus. Einnig þekkja hana margir úr kvikmyndunum The Boat That Rocked, Prince of Persia: The Sands of Time, Hansel & Gretel: Witch Hunters, Byzantium og The Girl with all the Gifts.

Mun hún líka bregða fyrir í hinni væntanlegu The King’s Man frá Matthew Vaughn.