„Hef ekki tapað hæfileikanum til að gleyma mér yfir mynd“

Fjölmiðlakonan og bíósérfræðingurinn Sigríður Pétursdóttir hefur farið yfir víðan völl. Hún hefur lengi starfað sem dagskrárgerðarmaður og hefur að mestu unnið fyrir RÚV, í útvarpi og sjónvarpi, meðal annars fyrir þættina Djöflaeyjuna og Menninguna.

Fókusinn er stilltur núna á Sigríði og fær kvikmyndafræðingurinn orðið.



Ef líf þitt væri söguþráður í kvikmynd, hvernig myndirðu lýsa atburðarásinni og hvernig tegund af kvikmynd væri um að ræða?

Ég er voða hrædd um að myndin yrði ansi dramatísk, en með skondnum atriðum því ég er einstaklega mikill
klaufi. Þroskasaga um stelpu sem fæðist í fátækt í litlu þorpi og reynir alla ævi að komast í fjölmennara
samfélag og fjölmenningu. Hún þarf að glíma við marga dreka og stærstan þeirra hennar eigin sjálfsmynd,
sem lagast ekki fyrr en eftir fimmtugt.

Ef við spólum til baka yfir til æskuára, hvað langaði þig mest til að verða í lífinu þegar þú yrðir stór?

Fyrst sagðist ég alltaf ætla að verða Ingibjörg Þorbergs. Eftir að ég áttaði mig á að það væri ekki hægt
langaði mig til að verða leikkona.

Áttu þér einhverja dulda hæfileika eða skemmtileg hobbý – fyrir utan vissulega það sem tilheyrir ástríðunni helstu?

Veit ekki um dulda hæfileika, en mörg áhugamál. Dansa mikið og hef gaman af að syngja. Er ástríðufullur
ljósmyndari og skrifa skáldskap. Um þessar mundir skemmti ég mér konunglega við matreiðslu úr
óvenjulegum hráefnum. Er að búa til rétti sem eru glútenlausir, vegan og án sykurs og opna
uppskriftavefsíðuna PurelySigga.com á næstunni. Ég kolféll fyrir ræktun kryddjurta og grænmetis í fyrra og er
að bíða eftir gróðurhúsi sem við festum kaup á.

Þinn uppáhalds ferðastaður og hvers vegna?

London. Þar bjó ég í sjö ár og finn fyrir heilmikilli heimþrá þrátt fyrir ástandið þar núna. Sakna vorsins fagra,
sakna þess að ganga um skóga og garða og ekki síst að fylgjast með magnólíum og kirsuberjatrjám
blómstra. Hvert hverfi hefur sinn sjarma og þau eru ótrúlega fjölbreytt. Þeir sem hafa bara komið í miðborgina
þekkja ekki London.

Uppáhalds persóna úr íslenskri kvikmynd eða þætti?

Þetta er erfiðasta spurningin. En ég ætla að segja Stella. Hún er dásamleg og alveg einstök.

Stella í orlofi (1986)

Hver er þín mest gefandi (e. óvæntasta) lífsreynsla í þínu fagi hingað til?

Ó, það er úr svo mörgu að velja. Ég hef verið svo lánsöm að taka viðtöl við stórkostlega listamenn eins og
Milan Kundera, David Lynch, Helen Mirren, Alfonso Cuaron, Lone Scherfig og Nicole Kidman. Það var
gaman fara á blaðamannafundi á hótelum með sjónvarpsfólki alls staðar að úr heiminum, borða samlokur og
spjalla við kollega meðan við biðum langalengi eftir 5 mínútna einkaviðtali við einhverja stjörnuna. En líka
spennandi að standa lengi í sömu sporum á rauða dreglinum og bíða eftir aðstandendum kvikmyndar með
fiðring í maganum í von um að þeir svöruðu minni spurningu. Baráttan um athygli þeirra er biluð og margir
fara heim tómhentir þrátt fyrir margra klukkustunda bið. Þrátt fyrir þessi ævintýri var hápunktur ferilsins að fá
að fara í fréttasettið til Boga þegar Hildur Guðnadóttir vann sín verðskulduðu Óskarsverðlaun. Fátt hefur glatt
mig meira á lífsleiðinni.

Ef þú gætir farið í tímavél og átt langt spjall með aðeins einni manneskju úr lista- eða mannkynssögunni, hvaða einstaklingur yrði fyrir valinu?

Kieslowski. Hann er og verður mín stóra kvikmyndaást.

Hvað var það sem upphaflega laðaði þig að kvikmyndum og þeim heimi þar á bak við?

Að geta horfið inn í ævintýraheim og gleymt mér. Fyrsta minningin úr kvikmyndahúsi er þegar pabbi fór með
mig á Bleika pardusinn og ég var logandi hrædd við að tígrisdýr kæmi út úr myndinni og réðist á mig. Dýrið
var reyndar bara feldur sem ein daman lá á. Þrátt fyrir meira en hálfa öld af áhorfi hef ég ekki tapað
hæfileikanum til að gleyma mér yfir mynd og það gleður mig.

Hvaða kvikmynd gætir þú talað endalaust um ef hún kæmi upp í samræðum?

Bláan, Rauðan og Hvítan eftir Kieslowski. Hef reyndar oft lent í slíkum samræðum.

Blue, White, Red (1993-1994)


Geturðu nefnt prýðisdæmi um kvikmyndaaðlögun þar sem bíómyndin er betri en bókin?

Psycho eftir Hitchcock er vægast sagt betri en samnefnd bók Robert Bloch. Í bókinni er morðið í sturtunni
afgreitt með einni setningu og persónusköpun ekkert sérstaklega góð.

Furðulegasti skandallinn á Óskarnum?

Þegar La La Land var lesið upp sem besta mynd og það síðan leiðrétt því Moonlight átti réttilega að fá
verðlaunin.

Aðeins yfir í tónlist, hvaða þrjú lög myndir þú segja að séu alltaf möst á þínum persónulega playlista?


Lovely Day með Bill Withers,
Morning Morgantown með Joni Mitchell
Soleil með Francoise Hardy.

Á þeim nótum… Besta íslenska stuðlagið?

Lífið er lag með Módel.

Bestu tónleikar sem þú hefur farið á?

Blondie í Roundhouse í London 2017. Debbie Harry er komin á áttræðisaldur en er meiri töffari en flestar
söngkonur um þrítugt. Röddin, úthaldið og hreyfingarnar. Magnað!

Hvaða barnaefni úr æsku gefur þér mestu nostalgíuna og hvers vegna?

Ég sá ekki sjónvarp fyrr en ég var níu ára svo ég rétt næ því að tengja barnaefni við nostalgíu. Dísa í
flöskunni var æði.

Uppáhalds dansatriði úr bíómynd/sjónvarpsþætti?

Gene Kelly steppar á dagblöðum í kvikmyndinni Summer Stock frá 1950.

Summer Stock (1950)


Einn fyndnasti frasinn úr bíómynd/þætti?

Ekkert toppar ‘I’ll have what she’s having’ úr When Harry Met Sally frá 1989.

og þá…

Bestu ráð sem þú hefur fengið?

Það er aldrei of seint að láta drauma sína rætast.