Yfir 600 titlar á Disney+ væntanlegir með ís­lensk­um texta eða tali

Yfir 600 kvikmyndir verða aðgengilegar með ís­lensk­um texta eða tali á streym­isveitunni Disney+ á næstunni, þar af eru yfir 100 teikni­mynd­ir tal­sett­ar á ís­lensku. Þessu greindi Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra frá á Facebook-síðu sinni í dag en hún hef­ur lengi unnið að því að fá Disney til að tryggja að bíó­mynd­ir frá þeim séu aðgengi­leg­ar með þessum hætti. Lilja seg­ir þetta marka tíma­mót í íslenskri tal­setn­ingu og textun.

Í bréfi frá Disney til Lilju voru til­greind­ar ýms­ar mynd­ir á við Gosa (Pinnocchio), Ísöld (Ice Age), Leik­fanga­saga (Toy Story), Fros­inn (Frozen), Pétur Pan og Stjörnu­stríðsmynd­irn­ar auk fjölda mynda frá Mar­vel. Öruggt er að segja að margir hafi glaðst þegar fóru að raðast inn myndir með íslensku tali á dögunum. Á meðal mynda má nefna Aladdín, Herkúles, Lísa í Undralandi, Ratatouille, The Incredibles, Zootropolis, Guffagrín og fleiri.

Upphaflega sendi Lilja forstjóra Disney, Bob Chapek, bréf í byrjun árs þar sem hún hvatti fyrirtækið til þess að bjóða í meira mæli upp á íslenska talsetningu og texta. Kvaðst hún þá hafa orðið fyrir vonbrigðum þegar hún komst að því hve lítið af slíku efni var í boði hjá fyrirtækinu.

Viku síðar fékk menntamálaráðherra svar frá Hans van Rijn, yfirmanni Disney á Norðurlöndunum, og sagði í svari hans að tæknileg vinna við að bjóða upp á íslenskt tal og texta taka nokkra mánuði. Hefur nú fengist staðfest að mynd­irn­ar verða aðgengi­leg­ar með íslenskum texta og talsetningu á streym­isveit­unni Disney+ í lok júní.

Bréfið til Lilju má sjá hér í heild sinni: