„Ég fagna öllum verkum okkar sem eldast illa“

Elísabet Ronaldsdóttir, einn færasti klippari landsins, hefur gert garðinn frægan síðustu árin með vinnu sinni að vinsælum titlum á borð við John Wick, Atomic Blonde, Deadpool 2 ásamt myndinni Between Heaven and Earth eftir Najwa Najjar. Næst á teikniborði hennar er spennumyndin Bullet Train með Brad Pitt, Söndru Bullock og Michael Shannon í aðalhlutverkum.

Elísabet hefur þó ekki eingöngu haldið sig við erlend verkefni á síðustu misserum heldur klippti einnig íslenskar kvikmyndir eins og Svaninn, Varg og heimildarmyndina Sólveig mín.

Elísabet er einn af þremur klippurum stórmyndarinnar Shang-Chi and the Legend of the Ten Rings, sem framleidd er af ofurhetjukvikmyndaverinu Marvel Studios. Um er að ræða fyrstu kvikmyndina sem skartar asískri ofurhetju sem aðalsöguhetju og hefur myndin hlotið góðar viðtökur bæði áhorfenda og aðdáenda.

Engu var til sparað við gerð þessarar myndar, sem er sú 25. í MCU-röðinni, og má segja að hún sé sú stærsta sem Elísabet hefur unnið að, en Marvel Studios er á bakvið margar tekjuhæstu kvikmyndir undanfarinna ára. Shang-Chi and the Legend of the Ten Rings sló í gegn í kvikmyndahúsum hér á landi og í Bandaríkjunum um helgina, en hún trónir á toppi aðsóknarlista í báðum löndunum.



Fókusinn er stilltur núna á Elísabetu og fær ofurklipparinn orðið þar sem hún segir frá hinu ýmsu á milli himins og jarðar.


Hvað var það sem upphaflega laðaði þig að kvikmyndum og kvikmyndaheiminum?
Það er erfitt að útskýra það núna þegar við njótum kvikmynda alla daga, hvort sem er í kvikmyndahúsum eða sjónvarpi, en kvikmyndir voru í mínum huga sjaldgæfur galdur sem heillaði mig snemma.

Ég safnaði bíóprógrömmum, sem voru eins og leikhúsprógrömm sem tilgreina helstu aðstandendur og útskýra söguþráðinn. Ég gaf kvikmyndunum stjörnueinkunn sem ég teiknaði á prógrömmin.

Þannig að líklega hef ég alltaf haft áhuga á kvikmyndum. En það var ekki fyrr en ég fór að vinna fyrir Sýn ehf, meðan það var enn framleiðslufyrirtæki, sem ég féll kylliflöt fyrir ferlinu og ákvað að fara í kvikmyndanám.

Hver er elsta minning þín úr kvikmyndasal og manstu hver var fyrsta myndin sem þú sást í bíó?

Ég á margar góðar minningar úr Gamla bíói, Stjörnubíói og Austurbæjarbíói. En bestu minningarnar eru úr Hafnarbíói, sem var í gömlum bragga, á gatnamótum Barónsstígs og Skúlagötu. Ég bar út blöð og seldi. Í laun var meðal annars bíómiði í braggann. Að fara þangað að sjá bíó var alltaf ævintýri. Ég sá þar mikið af klassík en aðeins einn titill situr fastur og ég hef ekki hugmynd um af hverju. Kannski ofbauð mér myndin? Dr. Goldfoot and the Bikini Machine (1965). Ég þyrfi að sjá hana aftur til að fatta afhverju titillinn gleymist ekki.

Fyrsta bíóheimsókn sem ég man eftir sem barn var þegar ég sá Disney teiknimynd í Gamla bíó, en ég man ekki hver þeirra það var. Við fengum litla kók í gleri og lakkrísrör.

Gætirðu rifjað upp tvær stemnings-minningar úr kvikmyndasal í gegnum árin, svona dæmi um upplifanir þar sem salurinn, myndin og andrúmsloftið myndaði eitthvað meiriháttar?

Ég man eftir að hafa séð Ghostbusters (1984) í París og það var í fyrsta skipti sem ég sá áhorfendur taka virkan þátt, hrópa upp, syngja, klappa og stappa. Það var þvílík upplifun. Ég held að næst hljóti að teljast frumsýningin á Shang-Chi and the Legends of the Ten Rings (2021) í síðustu viku. Það var þvílíkt stuð í salnum og fólk sleppti sér, sérstaklega í hvert skipti sem Tony Leung birtist á tjaldinu. Það var mjög ánægjuleg stund sem gleymist seint.

Uppáhalds persóna úr íslenskri kvikmynd eða þætti?
Ilmur Kristjánsdóttir sem Hinrika í Ófærð (2015).

Hún Ilmur er svo flott í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur.

Hver er mest gefandi (e. óvæntasta) lífsreynsla í þínu fagi hingað til?
Eflaust hvað ég er búin að eignast marga góða og trygga vini hérna úti, ekki síst klippara sem ættu að teljast samkeppnisaðilar.

Allar hugmyndir um að Hollywood sé full af innantómu, sjálfselsku fólki og að þú endir með hníf í bakinu, eru horfnar.

Ef við spólum til baka til æskuáranna, hvað langaði þig mest að verða þegar þú yrðir stór?
Veistu, ég hef ekki hugmynd. Ekki mamma heldur, ég spurði hana. Kannski er það mín gæfa að hafa ekki haft ákveðnar hugmyndir um hvað ég vildi verða. Mér hefði allavega aldrei dottið í hug kvikmyndaklippari!

Hvaða kvikmynd gætir þú talað endalaust um ef hún kæmi upp í samræðum?
Bara þá kvikmynd sem ég er að vinna við í hvert skipti. Það eru einu kvikmyndirnar sem ég verð heltekin af, í það ár sem tekur að vinna þær. Núna nenni ég bara að tala um Bullet Train…

Geturðu nefnt gott dæmi um kvikmyndaaðlögun þar sem bíómyndin er betri en bókin?
Bók og kvikmynd er að mínu mati ekki hægt að bera saman. Það eru verulega ólík form til að segja sögu. Ég nýt beggja og það eru til endalaus dæmi um að vel hafi tekist. Fight Club er eitt dæmi. Bókin er skrifuð af Even Chuck Palahaniuk, handritið skrifaði Jim Uhls, James Haygood klippti og David Fincher leikstýrði. Sagan segir að Even Chuck hafi sagt að bókin hafi ekki náð jafnvel utanum um söguna og kvikmyndin gerði, og var mjög sáttur.

Það eru líka til dæmi um að kvikmyndir verði að bókum, eins og The Dear Hunter, Alien og The Sixth Sense. Ég veit ekki hvort þær teljast góðar og hef ekki lesið þær sjálf. Og bíðið bara, Bullet Train, eftir Kotaro Isaka, er á leiðinni í bíó á næsta ári. Súperspennandi.

En persónu úr skáldskap sem eldist illa?
Líklegast er erfitt að finna klassískar bókmenntir sem ekki innihalda eitthvað sem okkur í nútímanum ofbýður. Það er okkar gæfa að læra, og þróa samfélag okkar til betri vegar. Ég fagna öllum verkum okkar sem eldast illa, það þýðir að við erum á hreyfingu fram á við.

Var einhver VHS spóla sem þú leigðir oftar en aðra í denn?
Ég er 4 barna móðir. Ef það var leigð kvikmynd var það til að kaupa sér smá frið. Þær tvær myndir sem voru í endalausri spilun, eins og ég man eftir því, voru Ace Ventura: Pet Detective (1994), sem því miður hefur ekki elst vel, og Stikkfrí (1997), dásamleg mynd sem ég hafði sjálf mjög gaman af. Var bara orðin pínu þreytt þegar börnin vildu horfa á hana í hundraðasta skipti.

Ef líf þitt væri söguþráður í kvikmynd, hvernig myndirðu lýsa atburðarásinni og hvernig tegund af kvikmynd væri um að ræða?
Miðaldra kona þvælist með börnin sín milli heimsálfa eftir bankahrunið 2007 og endar sem kvikmyndaklippari í Hollywood. Öll börnin lifa af. Action Comedy geri ég ráð fyrir.

Aðeins yfir í tónlist, hvaða þrjú lög myndir þú segja að séu alltaf möst á þínum persónulega spilunarlista?

Allt með LP, núna er „Tightrope“ á repeat.
„Hæpið“ og „Ógeðslegt“ með Reykjavíkurdætrum og „Warning“ með Band-Maid.

Á þeim nótum… Besta íslenska stuðlagið?
Ég veiktist alvarlega 2017 og notaði Björk, „Army of me“, til að koma mér á fætur á hverjum degi. Algjör tryllir og verður alltaf uppáhalds stuðlagið mitt.

Bestu tónleikar sem þú hefur farið á?
Cyndi Lauper og Rod Stewart í Hollywood Bowl 2018. Það var afar gaman og mikil nostalgía.

Uppáhalds ferðastaður og hvers vegna?
Ég ferðast of mikið vegna vinnu minnar, þannig að heima er alltaf best, nema ef við komumst til Hawaii.
Hawaii er eins og ef Ísland væri staðsett í Kyrrahafinu.

Hvaða sjónvarpsefni úr æsku gefur þér mestu/óvæntustu nostalgíuna og hvers vegna?

Nikto nie je doma, (1972). Það eru pólskir leiknir barnaþættir um dreng sem er alltaf einn heima og lendir í allskonar bralli.

Þeir voru í svart/hvítu og við systurnar misstum ekki af þætti. Kannski af því að það var ekki of mikið framboð af barnaefni en þessir sitja í mér og ég man þá sem snilld. Ég ætla að reyna að finna þá aftur og horfa á þá.

Uppáhalds dansatriði úr bíómynd/sjónvarpsþætti?
Singin’ in the Rain, (1952). Ég og krakkarnir fórum á þá mynd í útibíó í Singapore fyrir áratug. Það var svo gaman, ekki síst af því það var grenjandi rigning allan tímann. Og atriðið að sjálfsögðu með Gene Kelly að syngja og dansa með bros á vör, happy again.

Einn fyndnasti frasinn úr bíómynd/þætti?
„Boðið er búið, Bára komin í bleyti og majonesin orðin gul.“ Úr Stella í orlofi.

Þá að lokum…

Bestu ráð sem þú hefur fengið?
Að skulda aldrei skatta.