Tvær nýjar í bíó fara aftur í tímann

Tvær hörkuspennandi og áhugaverðar myndir koma nýjar í bíó nú í vikunni, en svo skemmtilega vill til að titlar myndanna tveggja eru keimlíkir. Í þeim er vísað til einhvers sem er að fara að gerast í síðasta skipti eða einhvers sem áður hefur gerst. Farið er aftur í tímann í tvennum skilningi því önnur myndin gerist á miðöldum en hin í sexunni ( sjöunda áratugnum ) á tuttugustu öldinni!  Hér er um að ræða miðaldamyndina The Last Duel og geðtryllinn Last Night in Soho, eða Síðasta einvígið og Síðasta nótt í Soho.

Báðar myndanna skarta topp leikurum, en sjálfir fóstbræðurnir bandarísku Matt Damon og Ben Affleck fara með stór hlutverk í The Last Duel ásamt því að skrifa handrit myndarinnar. Það er fyrsta handrit þeirra síðan þeir skrifuðu Óskarsmyndina Good Will Hunting.

Fjör í sexunni.

Með aðal kvenhlutverkið fer Free Guy leikkonan Jodie Comer. Leikstjóri er enginn annar en Alien og Gladiator leikstjórinn Ridley Scott.

Krefjandi brynjusaumur

Hin kvikmyndin er ný Edgar Wright mynd. Hver kannast ekki við hinar goðsagnakenndu splatter – gamanmyndir leikstjórans Hot Fuzz og Shaun of the Dead. Nú er það Last Night í Soho með Thomasin McKenzie og Ana Tayolor-Joy í aðalhlutverkum. Miðað við það sem kemur fram í stiklu myndarinnar getur allt gerst, hnífar fara á loft og blóðið mun renna.

Búningahönnuður The Last Duel segir í samtali við Variety kvikmyndaritið að þó að hann sé enginn nýgræðingur þegar kemur að miðaldabúningum, þá hafi búningarnir í The Last Duel reynst krefjandi saumaskapur. „Þetta voru eintómar hringabrynjur, hjálmar og brynjur frá toppi til táar, þannig að það var áskorun,“ segir Yates.

Adam Driver og Matt Damon á hestbaki.

Hann leitaði sér innblásturs í málverkum í listasöfnum en þar er enginn skortur á myndum af miðaldahetjum. „Við fengum brynju úr Metropolitan safninu í New York, og hún var með brjóstverju sem við breyttum talsvert.“

Annar innblástur kom frá myndum í kirkjum um allt England, Wales, Írland og Skotland.

Atriðin í sexunni áttu að vera hljóðlaus

Edgar Wright segir að þegar hann byrjaði að semja handritið að Last Night in Soho þá hugsaði hann sér atriðin með Sandie, sem Ana Taylor – Joy leikur, hljóðlaus.

Aðal persónan Eloise, sem Thomasin McKenzie leikur, hefur aldrei áður til Soho komið en uppgötvar leynigöng aftur í tímann, til sjöunda áratugs síðustu aldar. Þar kynnist hún Sandie, sem er glæsikvendi sem langar að verða söngkona.

„Ég hafði upprunalega hugsað mér að senurnar á sjöunda áratugnum væru hljóðlausar, eða það væri bara tónlist, en engin samtöl – að þær væru eins og draumar,“ sagði Wright við MovieMaker.

En þegar Wright ræddi málin við aðstoðar handritshöfundinn Krysty Wilson-Cairns, þá sagði hún að persóna Tayolor-Joy ætti að segja nokkrar setningar.

„Krysty sagði nokkkuð sem var alveg rökrétt. Hún sagði, „Þú veist, við verðum að heillast af Sandie. Og ég held að það sé erfitt ef hún segir ekkert.“ Og ég sagði „Það er laukrétt,“ sagði Wright. „Og þar er frábært. Bara ein svona athugasemd breytti handritinu mikið.“