Ætlar aldrei að hætta

Það er jafnan mikið ánægjuefni þegar ný íslensk kvikmynd kemur í bíó, og sú er raunin á morgun þegar kvikmyndin Harmur kemur í SAM bíóin. Það eru sömuleiðis mikil gleðitíðindi þegar nýr Liam Neeson spennutryllir kemur í bíó, en í Blacklight er Neeson mættur í Taken gírnum í hlutverki Travis Block. Fjölskyldu hans er ógnað og hann tekur til sinna ráða, grjótharður að vanda.

Í samtali við Kvikmyndir.is um síðustu áramót sagði Halldór Ísak Ólafsson einn þriggja framleiðenda Harms, ásamt leikstjórunum og æskuvinunum Ásgeiri Sigurðssyni og Antoni Karli Kristensen, að aðstandendur hafi viljað fjalla um íslensk ungmenni sem fara inn um dyrnar að undirheimunum, án þess að vera harðir glæponar. „Okkur fannst þetta mjög áhugaverð hugmynd og við fjöllum um fíkn og fjölskyldutengsl m.a.,“ sagði Halldór.

Auk ungra og óreyndra leikara fara þekktir leikarar með hlutverk í myndinni en Halldór sagði í samtali við Rás 2 að leikararnir hafi ákveðið að slá til eftir að hafa lesið handritið.

Aðalleikkona Svartra sanda

Þarna má nefna Ísgerði Elfu Gunnarsdóttur, Jóel Sæmundsson og Aldísi Amah Hamilton, sem lék aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttunum Svörtum söndum á Stöð 2, og var einnig á meðal handritshöfunda þeirra þátta.

Opinber söguþráður myndarinnar er á þessa leið: Hinn tvítugi Oliver býr ásamt móður sinni og yngri bróður í niðurníddu íbúðahverfi í Reykjavík. Samband hans við móður sína hefur farið batnandi upp á síðkastið en skyndilega breytist allt þegar móður hans hrakar, og ástandið í fjölskyldunni versnar.

Alltaf þakklátur

Í Blacklight leikur Neeson sérsveitarmann sem hefur ákveðið að setjast í helgan stein. Í samtali við Fox 32 í Chicago er leikarinn, sem verður sjötugur á þessu ári, spurður að því hvort að hann hafi einhverntímann hugað að því að fara á eftirlaun sjálfur. Svar leikarans var einfalt, hann hefur aldrei nokkurn tímann hugsað um það. Hann viðurkennir þó að hann hafi látið þau orð falla fyrir nokkrum árum síðan, meira í gríni en alvöru, að hann væri hættur að leika í spennumyndum. „Ég fæ þessi tilboð. Ókunnugt fólk sendir mér handrit og ég er alltaf þakklátur og tek því af auðmýkt og íhuga það alvarlega, hvort sem ég leik svo í viðkomandi mynd eða ekki. Ég virði störf handritshöfunda mikið, og veit hvað fer mikil vinna í að skrifa kvikmyndahandrit. Og þetta kemur í veg fyrir að ég þurfi að leita mér að annarri vinnu.“

Í myndinni lendir hann upp á kant við yfirmann sinn, forstjóra alríkislögreglunnar FBI, og fréttamaðurinn spyr í framhaldinu hvort hann hafi enhverntímann orðið ósáttur við leikstjóra í kvikmynd sem hann hefur leikið í. Neeson segir að það hafi afar sjaldan komið fyrir, en kannski hafi honum stundum fundist að leikstjórar viti ekki hvernig sé best að ræða við leikarana.