Tónlist Hildar í nýjustu mynd David O. Russell

Kvikmyndatónskáldið og Óskarsverðlaunahafinn Hildur Guðnadóttir sér um tónlistina í nýjustu mynd David O. Russell, Amsterdam. Frá þessu er greint á Wikipediu síðu Amsterdam. Jafnframt kemur þetta fram á Wikipediu síðu Hildar.

Vinir skála.

Russell hefur fimm sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlauna, en hann er þekktur fyrir kvikmyndirnar Joy, American Hustle og Silver Linings Playbook m.a.

Hildur er þekktust fyrir rómaða tónlist sína fyrir kvikmyndina Joker, sem var með Joaquin Phoenix í titilhlutverkinu. Hún fékk einmitt Óskarinn fyrir þá tónlist. Einnig vakti tónlist hennar fyrir sjónvarpsþættina Chernobyl mikla athygli.

Verða vitni að morði

Amsterdam gerist á fjórða áratug síðustu aldar og segir frá þremur vinum sem verða vitni að morði, en eru sjálfir grunaðir um verknaðinn. Þeir afhjúpa síðan eina svívirðilegastu fyrirætlun í sögu Bandaríkjanna.

Með helstu hlutverk fara Christian Bale, Ana Taylor-Joy, John David Washington, Margot Robbie, auk fjölda annarra heimsþekktra leikara.

Myndin kemur í bíó 4. nóvember nk.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: