Kvikmyndaárið gert upp með Poppkasti

Poppkast: Bíóhlaðvarp er glænýtt poppkúltúrs-cast en þar ræða þau Nanna Guðlaugardóttir kvikmyndafræðingur og Tómas Valgeirsson bíórýnir alls kyns kvikmyndatengd málefni út og inn. Fjallað er um allt á milli söngleikja, költ-mynda, svipmynda, sjónvarps, hryllings og sjónvarpshryllings, svo dæmi séu nefnd.

Í lýsingu þáttar segir að tilgangur hvers innslags og með vali á umræðu sé að uppgötva og fræðast um sess og dulið þemagildi verks, grandskoða leyndari horn kvikmyndasögunnar og mun þess á milli að aðskilja gæði út frá sögulegum sess, ef á við – og vissulega líka bara finna eitthvað gott popp(verk) til að háma í sig.

Nanna er nemi í hjúkrunarfræði með gráðu í kvikmyndafræðum og þykir sérlega mikil áhugamanneskja um hryllingsmyndir, búningadrama og söngleiki. Tómas starfaði í áraraðir sem bíógagnrýnandi á ýmsum miðlum og er einna þekktastur fyrir innslög sín um allt tengt kvikmyndum hjá Ómari Úlfi á X’inu sem og hér á Kvikmyndir.is.

Hlaðvarpið hóf göngu sína í desember og eru þættirnir nú orðnir fimm talsins. Á meðal umfjöllunarefnis má nefna ítarlegar greiningar á kvikmyndunum The Matrix Resurrections, Avatar: The Way of Water og Midsommar. Í áramótainnslagi tvíeykisins er rýnt í heitustu og helstu bíótitla ársins ásamt fleirum. Þar í brennidepli má nefna kvikmyndirnar Everything, Everywhere All at Once, The Batman, Nope, Top Gun: Maverick, Elvis, Blonde, svo dæmi séu nefnd.

Þættina má nálgast hér gegnum Spotify hlekki en almennt eru þeir aðgengilegir á helstu hlaðvarpsveitum (t.a.m. Apple, Google, Stitcher o.fl.)

https://open.spotify.com/episode/3qBnfGzkJS2I28qAnsozGA?si=drmaui5EQnGHjI3fj4aUKw
https://open.spotify.com/episode/2Fm2HiNDQshPQCk6aoXD7j?si=c65cdd5a2e614f95
https://open.spotify.com/episode/3MzkqTCGlWHShimxNvpsaO?si=14f8593a25ec4351
https://open.spotify.com/episode/3avjckgYDbzKup26Gzy4W1?si=8afb4d8798c940f5