Tían: Nostalgíumyndir

Enn einn föstudagurinn og þar sem að við fáum núna föstudaginn
þrettánda þykir tilvalið að koma með lista sem gefur manni góðan hroll.

Æli það sé nokkuð munur á nostalgíu og kjánahrolli? Það þykir víst
eðlilegt að maður sé með lélegan smekk á ungum aldri, en það er svosem
ekkert slæmt ef maður étur allt ofan í sig án þess að gera þær
lágmarkskröfur sem maður gerir í dag. Það þarf ekki mikið til að heilla
krakka, enda eru þeir hrifnir af nánast hverju sem er svo lengi sem það
er nóg að gerast á skjánum.

Kíkjum á…


.:10 LÉLEGAR MYNDIR SEM UNDIRRITAÐUR FÍLAÐI Í ÆSKU:.

(Engin sérstök röð núna)

Vil taka eitt fram: Ég horfði mikið á sjónvarp og gamla góða
VHSið þegar ég var yngri, svo mikið að það var eiginlega óhollt fyrir
mig. Reyndar verð ég að gefa ‘litla-mér’ smá credit fyrir það að hafa
horft gríðarlega mikið á gull eins og Raiders of the Lost Ark, Terminator 2, Back to the Future, Ferris Bueller’s Day Off, Superman, Die Hard (já, án djóks!), The Dark Crystal, Spaceballs, The Princess Bride og Star Wars þrennuna gömlu. Hins vegar horfði ég líka á mjög mikið sem ég myndi telja næstum því óáhorfanlegt í dag.
Og ath. Ég hef horft á þessar myndir aftur, tiltölulega nýlega m.a.s.

Þá sný ég mér beint að „Hvað var ég að hugsa?“ listanum.


– DICK TRACY
(1990)

Jesús almáttugur! Ef mér skjátlast ekki þá gaf Roger Ebert þessari mynd
fjórar stjörnur á sínum tíma (einkunn sem hann gaf líka The Golden
Compass. Oj). Dick Tracy er tilvalið dæmi um mynd sem er 100% útlit og
ekkert innihald. Það gerir það líka enn verra að horfa á myndina þegar
maður sér hvað er illa farið með frábæra leikara. Útlitið er að vísu
glæsilegt og Danny Elfman-tónlistin sparkar auðvitað í alls konar
rassa. Annars fer öll myndin bara rosalega í taugarnar á mér. Ég fæ
ekki einu sinni góða nostalgíutilfinningu þegar ég horfi á hana. Mér
leiðist bara og skil ekkert hvað ég sá við þetta í denn. Spurning hvort
það hafi verið brjóstin á Madonnu. Fínt að byrja snemma.

THE TRANSFORMERS: THE MOVIE (1986)

Það er ekki rangt að segja að Transformers-myndirnar nýju séu
kjánalegar. En vitið hvað? Teiknimyndirnar voru ennþá kjánalegri!
Transformers: The Movie er pínu sjokkerandi til áhorfs því það er svo
hrikalega mikið af dauðsföllum í henni og miskunnarlausu ofbeldi að það
er nánast þungt á magann. Soundtrack-ið er algjör brandari og öll
myndin er hreinlega bara leiðinleg, alveg sama hvað það er mikið að
gerast í henni.

HOOK (1991)

Ég verð að taka það strax fram að mér þykir þessi mynd alls ekki vera
léleg, en hún er aftur á móti hötuð af mörgum. Spielberg m.a.s. sjálfur
sagðist ekki vera ánægður með hana. Ég horfði reglulega á Hook í denn
og hef stöku sinnum kíkt á hana við tækifæri undanfarinn áratug. Hún er
auðvitað langdregin, þunn og ofboðslega væmin á köflum, en ég hef
alltaf gaman af því að horfa á Dustin Hoffman njóta sín í
titilhlutverkinu og tónlistin eftir John Williams (hvern annan?) er
alveg yndisleg að mínu mati. Ég finn fyrir svakalegri nostalgíu í hvert
sinn sem ég horfi á þessa, og annað en flestar aðrar myndirnar sem eru hér taldar upp, þá skammast ég mín lítið fyrir hana. Mun samt aldrei kalla hana góða.

MIGHTY MORPHIN’ POWER RANGERS: THE MOVIE (1995)

Þennan titil skammast ég mín hvað mest fyrir að hafa á þessum
svokallaða lista. Það var stórt ár í mínu lífi árið 1995 þegar ég – 8
ára – fór á þessa mynd í bíó. Ég var mikill aðdáandi og horfði því
miður á þættina líka, sem voru þúsundfalt verri. Power Rangers-myndin
er ein ástæðan af hverju við hötum oft barnaefni. Hún er illa unnin,
hörmulega leikin og tekur sig þar að auki svo fjandi alvarlega að það
er sársaukafullt á nokkur skynfæri.

ROBOCOP 2 (1990)

Hverjum hefði dottið í hug að leikstjóri The Empire Strikes Back gæti
gert svona hroðalegt framhald, og bara svo þið vitið, þá sá ég aldrei
þriðju myndina (sem Sindri Gretarsson, gamall gagnrýnandi á síðunni,
sagði mér að forðast með bestu getu!) enda hafði ég ekki hugmynd um
tilvist hennar þegar ég var smápolli. Robocop 1 og 2 voru reglulega í
spilun man ég eftir, sérstaklega nr. 2 (guð hjálpi mér). Fyrsta myndin
er mjög fín og get ég alveg horft á hana í dag. Nr. 2… ekki alveg, og
ég hef engan áhuga að sjá nr. 3. Og talandi um stop-motion brellur sem
eldast ömurlega.

– ALLAR ÞRJÁR TEENAGE MUTANT NINJA TURTLES MYNDIRNAR (1990-’93)

Ótrúlegt en satt, þá get ég ennþá horft á þessar myndir í dag. Þær eru
ekki góðar fyrir fimmkall og réttara sagt eru þær allar frekar slæmar.
Í hvert sinn sem ég horfi á þær kemur upp sú spurning „af hverju er ég
að horfa á þetta?“ og ég næ aldrei að svara því betur en „af því bara.“
Það er svo mikið guilty pleasure í þessum myndum, sérstaklega ef þú
varst mikill Turtles-aðdáandi, sem ég var. Mér finnst samt frekar
einkennilegt hvernig búninga- og skepnuhönnunin verður lakari með
hverri mynd. Skjaldbökurnar líta ótrúlega vel út í fyrstu myndinni, en
verða síðan voða vélrænar í þeirri þriðju.

COOL WORLD (1992)

Ég hef ekki minnstu hugmynd um hvað það var sem ég sá svona varið í
þessa froðu! Ég held að ég hafi bara verið það ungur því ég man ekki
eftir því. Það var allavega tímabil þar sem ég elskaði að horfa á
myndir sem blönduðu saman teiknimyndum við „live action,“ enda var (og
er) Who Framed Roger Rabbit í MIKLU uppáhaldi. Ég hef sennilega
bara haldið að Cool World væri næsti bær við. Ó NEI! Cool World er
draslmynd frá mistækum leikstjóra. Þegar ég sá hana aftur fyrir stuttu
áttaði ég mig á því að myndin var alltof „fullorðins“ fyrir mig til að
mega horfa á í denn. Hún er bæði lúmskt klámfengin og sýrðari heldur en
flestar Terry Gilliam-myndir. Saklausir krakkar pæla náttúrulega ekkert
í því, en samt!

SHORT CIRCUIT 2 (1988)

Fyrsta myndin telst ekki með því við áttum hana aldrei á spólu á mínu
heimili, bara þessa. Það er erfitt að elska ekki vélmennið Johnny Five
þegar maður er ungur, enda karakterinn ýtinn, barnalegur og stundum
hæper. Fullorðnir hinsvegar vilja helst taka hann úr sambandi eða
fjarlægja batteríið, hvernig sem hann virkar. Ég tók sénsinn og keypti
SC2 á skítaverði í Nexus fyrir einhverjum árum síðan og fékk nánast
hjartaáfall yfir hversu pirrandi þessi mynd var. Svo sá ég nr. 1 og
fannst hún ekki nærri því jafn slæm. Vildi að ég hefði frekar átt hana.

MOONRAKER (1979)

Af öllum helvítis Bond-myndunum þurfti það endilega að vera MOONRAKER
sem ég horfði oftast á. Kannski vegna þess að ég elskaði Bond sem
krakki (og til að bæta gráu ofan á svart fannst mér Roger Moore vera
skemmtilegastur þá) og hafði mikinn áhuga á geimævintýrum. Geðveik
blanda, ekki satt? Úfff…. nei. Ég get varla horft á þetta rugl í
meira en 5 mínútur í dag. Ég finn fyrir ælubragði í hvert skipti sem ég
sé illmennið Jaws breytast smátt og smátt í væmna „góða gaurinn.“

THE STUPIDS (1996)

Ég var 9 ára þegar ég horfði á þessa mynd (oftar en einu sinni) og hló!
Svo sá ég hana aftur cirka tvítugur og þurfti að halda fyrir augun svo
það myndi ekki blæða úr þeim. Það er erfitt að trúa því að þetta sé
sami leikstjóri og gerði The Blues Brothers og Three Amigos! Tom Arnold
hefur líka alltaf farið rosalega í taugarnar á mér eftir að ég byrjaði
að fá lágmarks vit á kvikmyndum. Eina undantekningin er sennilega True
Lies. The Stupids er ekki „Meet the Spartans/Disaster Movie“ léleg.
Alls ekki. Hún er meira „Spaugstofan á vondum degi“ léleg.

Hverjar eru nostalgíumyndirnar þínar? (Annars, ef þú hefur uppástungu að topp(eða botn)lista, endilega sendu mér póst á tommi@kvikmyndir.is