Tían: Stórstjörnur gerðar að fíflum

Enn einn föstudagurinn, sem þýðir enn einn Tíu-listinn, og enn og aftur kem ég með lista sem fer ekki eftir neinni sérstakri röð. Lofa að breyta því næst.

Skemmtilegt nokk. Þetta er fyrsta skiptið þar sem ég bý til „lista“ sem kemur ekki bara frá sjálfum mér. Ég fékk póst sendan (suddalega gaman, meira svoleiðis!) þar sem ég var beðinn um að nefna:


.:10 MYNDIR ÞAR SEM STÓRSTJÖRNUR GERÐU SIG AÐ FÍFLUM:.

Akkúrat! Við þekkjum þetta öll. Góð nöfn í ömurlegum myndum og billjón sinnum hafa allir hérna hugsað „hvað var þessi leikari að hugsa??“ og svarið verður náttúrulega ekkert flóknara en: „Peningar!“

Ég vil samt meira einblína á myndir sem hafa gert viðkomandi stjörnur að tímabundnu athlægi, því það er eitt fyrir leikara að gera mynd sem enginn fílar, en það er annað að taka að sér hlutverk sem er svo niðurlægjandi að þeir munu aldrei ná að hrista það af sér! Það er nákvæmlega það sem ég ætla að tala um hér. Og ég er þá mestmegnis bara að tala um myndir sem hafa haft vond áhrif á einn leikara, ekki heilu hópana.

Tek það fram að það var alls ekki erfitt að finna titla til að nefna. Erfiði parturinn var að sigta niður í aðeins 10 sæti. Ég lét þessa duga, og það var viljandi gert af mér að halda mig við aðeins síðustu tvo áratugi.

Látum okkur nú sjá…

– COLOR OF NIGHT (1994)

Eitt stórt „WTF???“ Bruce Willis hafði á þessum tíma ekki gert neitt nema fína hluti í töffarahlutverkum og síðan samþykkir hann að leika í þessari undarlegu blöndu af klámfengnum sálfræðiþriller og „whodunnit“ sögu. Willis er alveg úti á þekju í myndinni, og ég held að eina ástæðan fyrir þátttöku hans í myndinni var sú að hann myndi leika í trylltum kynlífssenum á móti Jane March (sem var nú reyndar ljómandi heit á sínum tíma). Stelpur: Ef þið viljið sjá „litla John“ McClane, þá sést hann í slíkri senu hérna. Njótið vel.

Mest niðurlægjandi setningin: Guð ég man það ekki…

– JINGLE ALL THE WAY (1996)

Cirka mánuður í jólin, sem gerir það enn meira viðeigandi að tala um þetta apagubb. Prófið að ímynda ykkur hversu slæma mynd „Ahnuuld“ þarf að gera til að það teljist niðurlægjandi fyrir hann, og sérstaklega ef að hún mynd slær út Batman & Robin, Raw Deal, Kindergarten Cop, JUNIOR og Hercules in New York í slappleika. Jingle All the Way er kannski ekki versta myndin hans, en hún er að mínu mati sú hallærislegasta, kjánalegasta og tilgangslausasta, og þar er MIKIÐ sagt. Hver einasta persóna í myndinni er algjör hálfviti, en Ahnuld sjálfur er mesti aulinn. Hann gerir ekkert annað en að hlaupa um á milli staða með þennan svip allan tímann, og maður fær svo mikinn kjánahroll við það að horfa á hann.

Mest niðurlægjandi setningin: „PUT DAT COOKIE DOWN! NAOW!!“


THE AVENGERS (1998)

Sean Connery kemur verr út í þessari mynd heldur en Highlander II. Það hlýtur að vera ansi sárt. The Avengers er reyndar risastór svartur blettur á ferilskrána hjá nokkrum hörkugóðum leikurum, þar á meðal Ralph Fiennes, Uma Thurman, Jim Broadbent og Fiona Shaw. Myndin er alveg ruddalega ofleikin af öllum nema Connery. Venjulega væri það góður hlutur nema hann fær hér verst skrifaða hlutverkið í allri myndinni. Hann leikur illmenni að nafni Sir August de Winter (talandi um „in your face“ nafn) sem hefur pervertískan áhuga á veðrinu og kemur með álíka jafn vonda one-linera og Mr. Freeze gerði í Batman & Robin. Hápunktur myndarinnar er ákveðin fundasena þar sem Connery ásamt öðrum illmennum ræða saman í bangsabúningum. Ef þið trúið mér ekki, þá er ég með mynd.

Mest niðurlægjandi setningin: „Rain or shine, all is mine!“

THE ASTRONAUTS WIFE (1999)

Johnny Depp hefur augljóslega verið meðvitaður um hversu glötuð mynd þetta var, enda hefur hann verið duglegur að velja almennileg handrit síðan (eða næstum því). The Astronauts Wife er glötuð eftirherma af Rosemary’s Baby og ég vona innilega að stúdíóið sem gerði hana sé löngu hætt að framleiða DVD diskana og geri það aldrei aftur.

Mest niðurlægjandi setningin: „I ain’t got no candy, where’s my candy?


– WILD WILD WEST (1999)

Will Smith, Kevin Kline og Kenneth Branagh, þrír ólíkir leikarar (fyrir utan það að tveir þeirra eru reyndir Shakespeare-leikarar) sem seldu sál sína til að leika í þessari últra-heiladauðu mainstream-froðu sem var allt annað en skemmtileg afþreying. Smith hefur líka alla mína samúð fyrir að hafna Neo-hlutverkinu úr The Matrix til að leika í þessari í staðinn.

Mest niðurlægjandi setningin (þessi á við um Smith): „That’s it, no more Mr. Knife guy.“

– BATTLEFIELD EARTH (2000)

Já, John Travolta ætti enn að vera að jafna sig eftir þetta lestarslys, en ég efa það því hann átti stóran þátt við gerð hennar. Kemur heldur ekki á óvart þar sem að myndin er byggð á samnefndri sögu eftir sama mann og fann upp á Vísindakirkjunni – sem Travolta tilheyrir. Hann tók s.s. ekki bara hlutverkið að sér til að græða aukapening, heldur framleiddi
hann myndina (Á-i) og virðist líka vera að fíla sig rosalega í geimveru-dulargervinu. Hann ofleikur eins og það sé ákaflega flottur
stíll og einhvern veginn sér maður að hann tekur handritið alvarlega. Forest Whitaker er líka þarna eins og algjör lúði en, annað en
Travolta, þá er hann algjörlega á sjálfsstýringu og er ekkert að reyna
á sig. Fyrir það gef ég honum credit. Hann sá strax hvað handritið var ömurlegt og vildi bara prófa sig áfram í mainstream-hlutverki.

Mest niðurlægjandi setningin: „Want some rat? It’s good!“

– THUNDERBIRDS (2004)

Ben Kingsley! HVAÐ GERÐIST?? Þessi maður lék í Schindler’s List, Ghandi, Sexy Beast ásamt fleiri gæðamyndum. Síðan fór allt til fjandans árið 2004 með Thunderbirds, og skánaði lítið með myndum eins og A Sound of Thunder, Bloodrayne, The Last Legion og The Love Guru. Ég set samt Thunderbirds á listann því ég man mest eftir þeirri mynd, því miður. Ég man bara að Kingsley var með ljótan augnskugga, gekk um í síðum rauðum slopp með fýlusvip út alla myndina. Og já, hann var kallaður „The Hood.“ Voða P.C. eitthvað.

Mest niðurlægjandi setningin: „Like a puppet on a string!“

– THE WICKER MAN (2006)

Hvað get ég sagt um þessa hroðalegu endurgerð sem þetta vídeó segir manni ekki? Þegar Nic Cage öskrar „How’d it get burned??“ (sem er augljóslega mest niðurlægjandi setning myndarinnar) þá er ég viss um að hann hafi verið að tala um ferilskránna sína.
Þessi „útgáfa“ er líka drullufyndin – http://www.youtube.com/watch?v=CyXl2RMZ0Po

– MR. MAGOIRUM’S WONDER EMPORIUM (2007)

Ég skammast mín hryllilega fyrir að hafa farið á þessa í bíó. Það kemur meira að segja á óvart að íslensk kvikmyndahús skuli sýna svona bullmyndir en ekki eitthvað í líkingu við (500) Days of Summer. Dustin Hoffman nær botninum hérna. Persóna hans er pirrandi, barnaleg, þrjósk og gleymd að öllu leyti, sem er mjög slæmt þegar um titilpersónu er að ræða. Hún á að vera áhugaverð, lífleg og skemmtileg. Ég hef samt átt erfitt með að gleyma þessari mynd. Hún fór mjög illa með mig. Mér leið illa eftir hana og vildi aldrei heyra minnst á hana aftur. Ég er mjög feginn að hún hafi floppað.

Mest niðurlægjandi setningin: „An accountant. According to the word, it must be a cross between a counter and a mutant and that may be precisely what we need.“

– THE SPIRIT (2008)

Samuel L. Jackson
vill greinilega flippa svolítið af og til (Snakes on a Plane, einhver?) en hérna er hann á einhverju tískutrippi. Fatnaðurinn hans er fyrir neðan allar hellur og ofleikurinn skuggalega pirrandi. Þessi persóna, sem nefnist Octopus, hefur líka sérkennilega aðdáun gagnvart eggjum, og ef mér skjátlast ekki þá talar hann mikið um þau. Hann hefur líka lélegan klósetthúmor ef ég man rétt.

Mest niðurlægjandi setningin: „Toilets are always funny“

Dettur ykkur einhverjar í hug?