Myrtar í Heiðmörk – Fyrsta stikla úr Grimmd!

grimmd„Eftir augnablik fær ég símtal þar sem ég fæ staðfest það sem við báðir vitum nú þegar, að þú dróst tvær stúlkur inn í bíl, keyrðir upp í Heiðmörk og myrtir þær,“ segir rannsóknarlögreglumaðurinn Jóhannes Schram við grunaðan morðingja í fyrstu stiklu fyrir nýja íslenska bíómynd, Grimmd, sem frumsýnd var í dag.

Myndin sjálf verður frumsýnd 21. október nk.

Í samtali við vísir.is á dögunum þá spáði Konstantín Mikaelsson yfirmaður kvikmyndamála hjá Senu, sem framleiðir myndina, því, að myndin yrði ein af tveimur stærstu íslensku myndum ársins, enda sé hér á ferðinni „frábær Skandinavískur krimmi.“

Leikstjóri myndarinnar er höfundur myndarinnar Grafir og Bein frá árinu 2014, Anton Sigurðsson.

Með aðalhlutverk fara þau Margrét Vilhjálmsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson, en með önnur helstu hlutverk fara þau Helgi Björnsson, Júlíana Sara Gunnarsdóttir, Hannes Óli Ágústsson, Salóme Gunnarsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pétur Sigurðsson og Hilmir Snær Guðnason.

grimmdarmyndir

Um er að ræða íslenska spennumynd sem segir frá því þegar tvær ungar stelpur hverfa sporlaust af leikvelli í Árbænum. Stúlkurnar finnast látnar í Heiðmörk og í einbeittri rannsókn í leit að sökudólgum fléttast saman nokkrar sögur þegar hræðileg atriði í máli stúlknanna koma upp á yfirborðið.

Þjóðfélagið fer á annan endann vegna málsins og reyndustu rannsóknarlögreglumenn landsins, þau Edda Davíðsdóttir (Margrét Vilhjálmsdóttir) og Jóhannes Schram (Sveinn Ólafur Gunnarsson) eru kölluð til. Þau eru bæði staðráðin í að leysa málið en þurfa að etja kappi við tímann þegar hvimleið atvik úr fortíðinni líta dagsins ljós og erfið rannsóknin flækist enn frekar.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: