Nýjar Star Wars myndir – Del Toro, Daisy Ridley og fleiri

Glænýjar myndir hafa birst úr næstu Star Wars mynd, Star Wars: The Last Jedi. Myndirnar eru teknar af hinum þekkta ljósmyndara Annie Leibovitz, og birtast í sumarhefti tímaritsins Vanity Fair.

Sjáðu hluta myndanna hér fyrir neðan:

Leibotitz er enginn nýgræðingur er kemur að Stjörnustríði, en hún hefur í gegnum tíðina myndað fyrir Lucasfilm, og til dæmis myndaði hún leikhópinn í The Empire Strikes Back fyrir birtingu í Rolling Stone tímaritinu á níunda áratug síðustu aldar. Síðan þá hefur hún heimsótt tökustaði fyrir Vanity Fair allt frá árinu 1999 þegar hún fór á tökustað The Phantom Menace, og hefur haldið því áfram síðan.

„Ég man frá því þegar ég byrjaði,“ sagði Leibovitz við vefsíðuna StarWars.com árið 2015, „Ég heillaðist af heiminum sem George [Lucas] hafði skapað. Ég hafði aldrei séð neitt þessu líkt áður. Þetta var algjörlega ótrúlegt.“

Von er á sumarhefti Vanity Fair í verslanir 31. maí nk. í New York og í Los Angeles, en fleiri myndir munu birtast á netinu nú í vikunni.

Hér fyrir neðan má sjá fleiri myndir sem opinberaðar voru í dag:

Daisy Ridley snýr aftur í hlutverki Rey.

Benicio Del Toro þreytir frumraun sína í Star Wars í hlutverki DJ.

Carrie Fisher, handritshöfundurinn og leikstjórinn Rian Johnson, Mark Hamill, og forstjóri Lucasfilm Kathleen Kennedy á bakvið tjöldin.