Nýtt í bíó – Fangaverðir

Ný íslensk kvikmynd, Fangaverðir, eftir Ólaf Svein Gíslason myndlistarmann, var frumsýnd nú um helgina í Bíó Paradís. Myndin hefur nú þegar hlotið góða dóma, en gagnrýnandi Morgunblaðsins, Brynja Hjálmsdóttir, gaf myndinni fjórar stjörnur af fimm mögulegum.

fanga-mynd

Myndin fjallar um fangaverði Hegningarhússins við Skólavörðustíg, og birtir sýn þeirra á starf sitt, daglega reynslu þeirra innan fangelsisins og hugrenningar um það viðmót sem þeim mætir utan fangelsis. Þeir eru á landamærum hins frjálsa samfélags og þess afmarkaða rýmis sem fangelsið er.

Verkið var kvikmyndað vorið 2014 á meðan fangelsið var í fullri notkun. Í myndinni leika tveir fangaverðir sem störfuðu í Hegningarhúsinu en jafnframt fara Sigurður Skúlason og Þorsteinn Bachmann með hlutverk í kvikmyndinni.

Ólafur Sveinn Gíslason, handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar lauk námi frá listaháskólanum í Hamborg árið 1988 eftir nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Ólafur hefur starfað að verkefnum sínum í Þýskalandi og sem prófessor við Listaháskóla Íslands frá 2007 til 2016.

„Þrátt fyrir að myndin sé unnin upp úr viðtölum er hún ekki sett upp eins og um viðtöl séu að ræða. Verðirnir skiptast á að tala og líkist flutningur þeirra frekar innra samtali eða hugsunum en svörum við viðtalsspurningum. Þeir horfa ekki í myndavélina eða á viðmælanda heldur horfa þeir oftast nær út í loftið eins og þeir séu ekki að tala við neinn nema sjálfan sig. Oftast er einungis ein persóna í mynd hverju sinni en þegar fleiri eru í mynd talar bara einn í einu á meðan hinir virðast ómeðvitaðir um þann sem talar, líkt og þeir heyri ekki í honum. Þetta styrkir tilfinninguna fyrir því að fangaverðirnir séu að „hugsa upphátt“ og gefur myndinni aukna listræna vídd,“ segir í dómi Brynju um myndina.

Þá segir hún að allt í kvikmyndinni sé berstrípað “ … framsaga leikara er tilþrifalaus, sviðsmyndin sömuleiðis og notkun tónlistar er nánast engin. Innviðir fangelsisins eru þröngir, hvítir og kaldir og áhorfendur eru á táknrænan hátt lokaðir inni með fangavörðunum sem virðast einnig lokaðir inni í sjálfum sér.“

Gagnrýnandinn klikkir svo út með því að segja að úr þessu verði tilraunakennd og spennandi útkoma og ánægjulegt sé að sjá formið „tæklað af slíkri leikgleði og nýjungagirni.“

poster