Nýtt í bíó – Super Troopers 2

Gamanmyndin Super Troopers 2 verður frumsýnd í dag, miðvikudag, í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri.  Þegar kemur upp landamæradeila á milli Bandaríkjanna og Kanada eru Super Troopers sendir á staðinn til að leysa málin.

Skoðun leiðir í ljós að landmælingar á spildu einni sunnarlega í Québec í Kanada hafa verið rangar því nýjar mælingar sýna að hún tilheyrir að öllum líkindum Vermont-ríki Bandaríkjanna.  Á meðan endanlega er skorið úr um eignarhaldið fyrir dómstólum er svæðið lýst hlutlaust og felst verkefni okkar manna, lögreglumannanna Thorny, Foster, Mac, Rabbit og Farva, í því að koma upp nýrri eftirlitsstöð á því. Þessu kunna íbúar svæðisins frekar illa og þá ekki síst hin kanadíska sveit landamæravarða sem lítur á allt bandarískt sem óvelkomna aðskotahluti. Það má því segja að andrúmsloftið á svæðinu verði í framhaldinu lævi blandið og óvenjulega eldfimt …

Leikstjórn: Jay Chandrasekhar

Helstu leikarar: Erik Stolhanske, Steve Lemme, Jay Chandrasekhar, Kevin Heffernan.

Áhugaverðir punktar til gamans: 

-Eftir að fyrri Super Troopers-myndin sló í gegn árið 2001 gaf Broken Lizard-gríngengið, þ.e. þeir sem léku lögreglumennina fimm, það út að gerð yrði mynd númer tvö. Fyrst var talað um að hún yrði ekki framhald heldur forsaga þar sem feður fimmmenninganna yrðu aðalpersónurnar en smám saman breyttist sú hugmynd yfir í þá sem hér er loksins orðin að veruleika, sautján árum síðar.

-Til að fjármagna gerð myndarinnar fóru fimmmenningarnir í samstarf við fjármögnunarvefinn Indiegogo í mars 2015 og var markið sett á að safna tveimur milljónum dollara. Það náðist með glans á aðeins 26 klukkustundum og þegar yfir lauk, mánuði síðar, var upphæðin komin í 4,4 milljónir dollara. Um leið varð þetta sjöunda best heppnaða fjármögnun Indiegogo frá upphafi.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan og plakat þar fyrir neðan: