Nýtt í bíó – The Walk

Hin ævisögulega kvikmynd The Walk verður frumsýnd á föstudaginn í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri. Jafnframt verður myndin forsýnd í Háskólabíói á morgun, miðvikudag kl. 20:00.

Myndin segir frá línudansaranum Philippe Petit sem lagði allt í sölurnar til að ganga á milli Tvíburaturnanna í World Trade Center byggingunni 7. ágúst 1974. Myndin byggir á sannri sögu Petits, sem sýnir á ótrúlegan hátt hvernig draumar geta ræst fyrir tilstilli járnvilja, öflugra vina og vírstrengs sem er 400 metra langur og 200 kg. þungur.

„Tólf manns hafa gengið á tunglinu en aðeins einn maður í heiminum – Philippe Petit (Joseph Gordon-Levitt) – hefur gengið yfir ógnarstórt tómið sem var á milli Tvíburaturnanna. Hann naut leiðsagnar lærimeistara síns (Ben Kingsley) og aðstoðar ólíklegasta fólks við að takast á við þetta brjálæðislega – og að því er virðist óyfirstíganlega – verkefni,“ segir í tilkynningu frá Senu.

plakatÍ aðalhlutverkum eru Joseph Gordon-Levitt, Ben Kingsley, Charlotte Le Bon og fleiri.

Áhugaverðir punktar til gamans:

– The Walk er byggð á bók Philippes Petit, To Reach the Clouds, en á henni var heimildarmyndin Man on Wire eftir James Marsh einnig byggð. Sú mynd hlaut Óskarsverðlaunin árið 2009 sem besta heimildarmynd ársins 2008.

– Myndin hefur hvergi verið sýnd þegar þetta er skrifað og því hafa engir dómar birst um hana. Ætli það sé samt ekki óhætt að reikna með góðri mynd enda er leikstjóri myndarinnar, Robert Zemeckis, þekktur fyrir gæðamyndir eins og Back To the Future-seríuna, Forrest Gump, Cast Away, Romancing the Stone, Death Becomes Her, The Polar Express, What Lies Beneath, A Christmas Carol og Flight ásamt fleirum og hafa myndir hans og hann sjálfur hlotið fleiri verðlaun en tölu verður á komið.

– Fyrir utan allar verðlaunamyndirnar er Robert Zemeckis brautryðjandi í kvikmyndatækni og kvikmyndabrellum. Hann lét hafa eftir sér í viðtali á dögunum að áhorfendur The Walk myndu upplifa nokkuð alveg nýtt í myndinni og að það yrði ólíkt allri fyrri kvikmyndareynslu þeirra til þessa.

– Daginn eftir gönguna var Philippe Petit handtekinn enda ólöglegt að gera það sem hann gerði. Hann slapp hins vegar við ákæru og sekt gegn því að halda sýningu fyrir börn í Central Park.