Nýtt í bíó – X-Men: Apocalypse

Á morgun, miðvikudaginn 18. maí verður Marvel-spennumyndin X-Men: Apocalypse frumsýnd í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói, Egilshöll og Borgarbíói, Akureyri.

„Hetjurnar eru mættar aftur og heimsendir nálgast!“

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Hinn stökkbreytti En Sabah Nur, eða Apocalypse, er talinn fyrsti stökkbreytti einstaklingurinn í X-Men seríu Marvel og jafnframt sá öflugasti. Hann hefur þann eiginleika að geta safnað kröftum annarra stökkbreyttra manna og er nú bæði ódauðlegur og ósigrandi.

X-Men: Apocalypse tekur upp þráðinn á sjöunda áratugnum, tíu árum eftir að myndinni X-Men: Days of Future Past lýkur. Prófessor X, Magneto og Mystique hafa ekki séð hvort annað síðan þá en leiðir þeirra liggja saman á ný þegar hinn forni En Sabah Nur vaknar eftir að hafa legið í dvala í þúsundir ára. Hann sækist eftir því að fá Storm, Angel, Psylocke og Magneto til liðs við sig til að gegna hlutverki hinna fjögurra reiðmanna heimsendans, sem er vísun í Biblíuna. En Sabah Nur ætlar sér að endurbyggja núverandi heim. Örlög jarðarinnar eru í höndum Mystique og Prófessor X sem, ásamt hópi af ungu stökkbreyttu fólki, þurfa að stöðva hreinsunina og bjarga mannkyninu frá tortímingu.

xmen1

Hinn íslenski leikari Tómas Lemarquis ( Nói albínói ) fer með hlutverk stökkbrigðisins Caliban sem hefur þann hæfileika að geta skynjað aðrar stökkbreyttar manneskjur.

Eins og fram kemur í tilkynningu frá Senu er þetta stærsta hlutverk hans til þessa og sagði hann í samtali við mbl.is í fyrra að þetta væri hans fyrsta 3D verkefni.

Í söguheimi Marvel hefur Caliban bæði tilheyrt X-Mönnum og stuðningsmönnum Apocalypse. Forvitnilegt verður að sjá hvoru liðinu Tómas mun tilheyra.

tómas x-men Tómas Lemarquis (neðst til hægri) ásamt X-Men teyminu. Tómas segir að gaman sé að vinna með leikstjóranum Bryan Singer.

Aðrir leikarar: Jennifer Lawrence, Michael Fassbender, Evan Peters, Olivia Munn, Tye Sheridan, Josh Helman, Lucas Till, Alexandra Shipp og Monique Ganderton.