Ofurtök á toppsæti

DC Comics ofurhetjan öfluga Black Adam hefur traust tök á toppsæti íslenska bíóaðsóknarlistans aðra vikuna í röð. Tekjur myndarinnar námu tæpum fimm milljónum króna og samtals eru nú tekjur af sýningu myndarinnar hér á landi komnar upp í rúmar tuttugu milljónir króna frá frumsýningu fyrir rúmri viku síðan.

Það hefur enginn roð við Black Adam.

Velgengni myndarinnar er einnig mikil í Bandaríkjunum þar sem hún hefur fyllt fjárhirslur framleiðenda svo um munar, en 110 milljónir dala hafa komið í kassann í heimalandinu.

Önnur vinsælasta kvikmynd á Íslandi er fjölskyldumyndin um Kalla káta krókódíl en hún var líka í öðru sæti í síðustu viku. 1.600 hundruð manns lögðu leið sína í bíó til að sjá myndina nú um helgina.

Þriðja sæti listans fellur svo í skaut verðlaunamyndarinnar Triangle of Sadness.

Svartur á góðan leik í miðasölunni

Sé horft á það hvaða myndir eru tekjuhæstar samtals þá ber íslenska spennumyndin Svartur á leik þar höfuð og herðar yfir aðrar myndir með 88 milljónir króna, en myndin er nú í endursýningum.

Minions: The Rise of Gru er einnig búin að skila sínu eða 69 milljónum króna eftir 18 vikur í sýningum. Þá er Sonic the Hedgehog aftur komin í bíó og samtals hefur hún halað inn 34 milljónum króna frá frumsýningu.

Sjáðu listann í heild sinni hér fyrir neðan: