Óskarsræða Gere sem dró dilk á eftir sér

Sú var tíðin að mynd með Richard Gere vakti þó nokkra athygli en það eru ár og dagar síðan. Undanfarin ár hefur hann verið frekar iðinn við kolann og leikið í mörgum myndum en þær fá takmarkaða athygli, kynningu og dreifingu. Að mati Gere hefur afstaða kínverskra stjórnvalda haft þau áhrif að hann fær einfaldlega ekki boð um að leika í öðrum myndum en þeim sem hafa ekki stór myndver á bak við sig.

Gere hefur verið að fá frábæra dóma fyrir leik sinn í „Norman“ en lítið hefur farið fyrir þeirri mynd og hæpið að hún nái að þéna 5 milljónir dollara í heildina. Nýverið var byrjað að sýna „The Dinner“ sem skartar einnig Lauru Linney og hún er smám saman að fikra sig áfram í fleiri kvikmyndahús.

Gere varð á nýjan leik einn heitasti leikari samtímans þegar „Pretty Woman“ (1990) sló í gegn og kvöld eitt árið 1993 þegar Óskarverðlaunin voru afhent hlotnaðist honum sá heiður að kynna verðlaun fyrir bestu listrænu sjórnunina. Hann notaði tækifærið og gagnrýndi kínversk yfirvöld fyrir ómannúðlega meðferð gegn Tíbet búum áður en hann las upp tilnefningarnar. Í kjölfarið mátti hann ekki koma á fleiri verðlaunahátíðir og að mati margra hefur hann verið snuðaður um tilnefningar sem hann hefði átt að fá seinna meir. Það var helst áberandi þegar allir nema hann fengu tilnefningar til Óskarsverðlauna fyrir „Chicago“ (2002) en fyrir leik sinn hreppti Gere þó Golden Globe hnöttinn.

Í nýlegu viðtali við The Hollywood Reporter segist Gere ekki vera óánægður með hvernig ferill hans hefur þróast. Hann er samt meðvitaður um að afstaða kínverskra stjórnvalda í hans garð hefur þýtt að hann fái ekki hlutverk í dýrari myndum sem fá meiri kynningu og athygli einfaldlega af því að myndirnar fengju ekki að vera sýndar í landinu. „Ekki mynd með honum segja Kínverjarnir,“ greinir Gere frá og hann ljóstrar því einnig upp að fyrir fáeinum árum síðan ætlaði hann að leika í mynd eftir kínverskan leikstjóra og tveimur vikum áður en tökur áttu að hefjast fékk hann hringingu. „Ég get ekki gert það, sagði hann. Ef þessi maður hefði haldið þessu til streitu hefði hann og fjölskyldan hans aldrei getað yfirgefið landið aftur og hann fengi ekki vinnu,“ segir Gere.

Gere heldur áfram að vera ötull talsmaður fyrir réttindi Tíbet búa og náinn vinur Dalai Lama, andlegs leiðtoga tíbetskra búddista. En ljóst er að gamli silfurrefurinn er hvergi nærri hættur að leika en aðdáendur hans þurfa að hafa svolítið fyrir því að fylgjast með honum á hvíta tjaldinu.

Hollywood Reporter viðtalið má sjá hér: