Ósýnilegi maðurinn og Nic Cage berst við geimverur

Tvær nýjar og spennandi stiklur voru frumsýndar í dag á internetinu. Annarsvegar er þar á ferðinni kvikmyndin The Invisible Man, eða Ósýnilegi maðurinn, með Elisabeth Moss úr The Handmaid´s Tale í aðalhlutverki og hinsvegar er það geim-innrásarkvikmyndin Color Out of Space með engum öðrum en Nicolas Cage í aðalhlutverkinu.

Af stiklunni úr Ósýnilega manninum að dæma þá er myndin mjög taugatrekkjandi, en persóna Moss getur andað léttar þegar ofbeldisfullur eiginmaður hennar fremur sjálfsmorð, að því er virðist. En ekki er allt sem sýnist því svo virðist sem hann sé nú orðinn ósýnilegur og haldi áfram að hrella þessa eiginkonu sína, sem aldrei fyrr.

Í Color Out of Space er síst minni spenna á ferðinni ef eitthvað er að marka stikluna, en Nicolas Cage og fjölskylda eru bara í fínum gír heima hjá sér og njóta lífsins, þegar eitthvað fyrirbæri utan úr geimnum fer að ónáða þau, og svo virðist sem það hafi náð að þröngva sér inn allt í kringum þau, í vatnið, í loftið, jafnvel í formi litar!

The Invisible Man kemur í bíó á Íslandi 28. febrúar nk. en Color out of Space er ekki með frumsýningardag staðfestan.

Sjón er sögu ríkari, kíktu á stiklurnar hér fyrir neðan: