Pardusinn stenst áhlaup Bruce Willis

Vinsældir Marvel ofurhetjumyndarinnar Black Panther halda áfram, en myndin situr nú sína fjórðu viku í röð á toppi íslenska bíóaðsóknarlistans. Þetta er svipað og annarsstaðar þar sem kvikmyndin er sýnd, en aðsóknartekjur myndarinnar á heimsvísu eru komnar yfir einn milljarð Bandaríkjadala.

Bruce Willis, nýr á lista, í hefndartryllinum Death Wish, gerir heiðarlega tilraun til að hrinda pardusnum af toppnum, en kemst ekki lengra en í annað sæti listans. Í þriðja sæti, sama sæti og í síðustu viku, situr gamanmyndin Game Night, með einvalaliði gamanleikara.

Tvær aðrar nýjar myndir eru á listanum að þessu sinni. Hin stórgóða Andið eðlilega eftir Ísoldu Uggadóttur fer beint í sjötta sætið, og í 12. sætinu situr nú samfélagsmiðla-gamanmyndin Status Update.

Sjáðu listann í heild sinni hér fyrir neðan.