Peter Jackson sýnir nýtt myndbrot

 

Fyrir skemmstu stóðu Peter Jackson og framleiðendur Hobbita-þríleiksins fyrir „live event“, þar sem aðdáendur gátu fylgst með lifandi spjalli og komið spurningum á framfæri í beinni tengingu við leikstjórann og aðstandendur myndanna, ef ég skil atburðinn rétt. Ég hef ekki séð hann sjálfur, enda er upptakan einungis aðgengileg þeim sem hafa keypt sér The Hobbit: An Unexpected Journey á DVD eða BluRay og fengið sérstakan kóða sem þarf að slá inn til að sjá þetta allt saman. Hins vegar fékk ég, og allir aðrir forvitnir, að sjá stutt myndbrot sem ku vera bútur úr téðum lifandi atburði, sem birtist á Fésbókarsíðu leikstjórans Jacksons í gær, fyrsta apríl.

Ég fæ ekki betur séð en að brotið sé ekki hluti af live eventnum, heldur sérgert sem einhvers konar furðulegt aprílgabb (sem er samt ekkert sérstaklega mikið gabb, meira eins og góðlátlegt flipp?) hjá leikstjóranum. Þrátt fyrir yfirbragð aprílgabbs, þá kitlar Jackson engu að síður eftirvæntingu aðdáenda m.a. með því að sýna örstutt brot þar sem álfkonunni Tauriel bregður fyrir og ræða útlit Myrkviðar í annarri myndinni, The Desolation of Smaug. Jackson gæti eflaust sent frá sér algjört bull á fyrsta apríl (á borð við langa og tilefnislausa umræðu um Colbert Report bolla), því yrði alltaf tekið að einhverju leyti fagnandi af aðdáendum sem bíða óþreyjufullir eftir hverju einasta innskoti frá leikstjóranum og bútum úr því sem koma skal úr framtíð þríleiksins, sama hversu smáir þeir kunna að vera.

Myndbrotið má sjá að neðan og er þess virði að kíkja á til þess eins að sjá Stephen Colbert bregða fyrir og afhjúpa Hobbita-nördið innra með sér með undursamlega vel orðaðri spurningu sem ætti að gleðja alla þá sem hafa eytt of miklum tíma við lestur á Tolkien í gegnum tíðina.