Plakat fyrir nýjustu kvikmynd Baldvin Z

Plakat fyrir nýjustu kvikmynd leikstjórans Baldvin Z hefur litið dagsins ljós. Á plakatinu má sjá leikkonurnar Elínu Sif og Eyrúnu Björk í hlutverkum sínum í myndinni og er önnur þeirra með greinilegt glóðurauga. Plakatið má sjá hér til vinstri og er hægt að stækka myndina með því að smella á hana.

Um er að ræða plakat sem sýnir auk myndar aðeins titil, leikstjóra og frumsýningardag. Endanlegt plakat með öllum titlum og mögulega annarri mynd er væntanlegt þegar nær dregur að frumsýningardeginum 7. september, 2018.

Kvikmyndin ber heitið Lof mér að falla og fjallar um hina 15 ára Magneu og Stellu sem er 18 ára. Magnea laðast að hispurslausu lífi Stellu og þróar Magnea sterkar tilfinningar til hennar sem Stella notfærir sér til eigin hagsbóta. Stella leiðir Magneu inn í heim fíkniefna sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir þær báðar. Tólf árum síðar liggja leiðir þeirra óvænt saman og verður uppgjör á milli þeirra óumflýjanlegt.

Það er Kvikmyndafélag Íslands sem framleiðir myndina með þeim Júlíusi Kemp og Ingvari Þórðarsyni í fararbroddi. Með aðalhlutverk fara eins og áður segir Elín Sif Halldórsdóttir, Eyrún Björk Jakobsdóttir ásamt Þorsteini Bachmann.