Raising Cain viðhafnarútgáfa á Blu

„Raising Cain“ (1992) eftir Brian De Palma fær viðhafnarútgáfu frá Scream Factory í Bandaríkjunum. Myndin þykir meðal þeirra síðri eftir leikstjórann en hann á að baki nokkrar mikils metnar myndir á borð við „Carrie“ (1976), „Dressed to Kill“ (1980), „Scarface“ (1983) og „The Untouchables“ (1987) en einnig myndir sem þykja hreint ansi slakar og nægir að nefna „Wise Guys“ (1986), „The Bonfire of the Vanities“ (1990), „Mission to Mars“ (2000) og „Femme Fatale“ (2002) í því samhengi.

Cain 1

Í væntanlegu viðhafnarútgáfunni verður að finna nokkurs konar leikstjóraútgáfu, þó nokkuð ófhefðbundna, þar sem uppbygging sögunnar verður öðruvísi með endurröðun á atriðum eins og De Palma hafði upprunanlega séð hana fyrir sér. Engin ný atriði líta dagsins ljós en gera má ráð fyrir því að stígandinn verði allt annar og myndin verður a.m.k. eins og leikstjórinn vildi í upphafi.

„Raising Cain“ segir frá Carter Nix (John Lithgow), virtum sálfræðingi sem er giftur og á unga dóttur. Hann tekur sér árs frí frá vinnu til að helga sig að uppeldinu en sýnir barninu of mikla athygli að mati konu sinnar Jenny (Lolita Davidovich). Málin flækjast svo um munar þegar fleiri persónuleikar Carters skjóta upp kollinum og hann tekur upp á því að ræna börnum og drepa mæður þeirra og barnfóstrur.

Cain 5

Frá fyrsta atriðinu í „Raising Cain“ er ljóst að Carter er ekki heill á geði og myndin tekur svo góðan tíma í hliðarsögu sem snýr að eiginkonu hans áður en atburðarrásin snýr aftur að óhugnaðinum hjá Carter. Mig grunar að „nýja“ útgáfan muni halda því leyndu í smá tíma að hann sé mannræningi og morðingi og byrja á málum Jenny. Þetta er bara gisk en mér hefur alltaf þótt myndin sýna trompin sín of fljótt áður en hún hægir á framvindu mála. Hvort þessi endurröðun atriða muni breyta sæmilegri mynd í góða er hæpið en það er alltaf jákvætt þegar upprunanleg sýn góðra leikstjóra fær að njóta sín.

De Palma hefur aldrei farið leynt með aðdáun sína á Alfred Hitchcock og hér er að finna nokkrar tilvísanir í myndir meistarans en „Raising Cain“ ber mikil ummerki um andleysi þar sem hann stelur einnig atriðum frá sjálfum sér (sér í lagi „Dressed to Kill“) en óneitanlega er mikill stíll yfir myndinni, söguþráðurinn er góður og John Lithgow fer á kostum í krefjandi hlutverki. Ekki alslæm mynd og „nýja“ útgáfan er dálítið freistandi.

Cain 2

Fleira aukaefni prýðir þessa tveggja diska viðhafnarútgáfu eins og viðtöl við leikara og stikla um ferlið á bak við að sýna breyttu útgáfuna. Útgáfudagur er 13. september.

Þess má geta að Arrow Video í Bretlandi gefa „Raising Cain“ út á Blu-ray þann 12. september en ekki er búið að gefa út endanlega hvaða aukaefni prýðir diskinn en þar verður að minnsta kosti viðtal við John Lithgow.

Sýnishornið úr Raising Cain.