Saga Mikkelsens í framleiðslu Baltasars

Leikstjórinn og ofurframleiðandinn Baltasar Kormákur er með mörg járn í eldinum þessa dagana og hefur lítið látið faraldurinn stöðva maskínuna. Auk sjónvarpsseríunnar Kötlu, sem sýndir verða á Netflix í vor eða sumar, er Baltasar að ljúka við að klippa þriðju þáttaröðina af Ófærð og jafnframt er spennutryllirinn Beast með Idris Elba í vinnslu fyrir Universal Studios. 

Þá er Baltasar einnig að framleiða sannsögulega kvikmynd með Nikolaj Coster-Waldau (Game of Thrones) og Joe Cole (Peaky Blinders) í aðalhlutverki.

Það er fréttamiðillinn Deadline sem greindi meðal annars frá þessu verkefni en myndin ber heitið Against the Ice og fer Game of Thrones-stjarnan með hlutverk hins þekkta danska heimskautafara Ejnar Mikkelsen. Í viðtali við ofannefndan miðil segir Coster-Waldau þetta vera mikið ástríðuverkefni og telur það mikinn heiður að fá að túlka Mikkelsen.

Atburðarásin hefst við upphaf tuttugustu aldarinnar og er byggð á ritum Mikkelsens. Segir myndin frá háskaförum hans í óbyggðum á Norðaustur-Grænlandi ásamt könnuðinum Iver P. Iversen, sem leikinn er af Cole.

RVK Studios framleiðir Against the Ice fyrir Netflix og er tökum nýlokið hér á landi. Það er danski leikstjórinn Peter Flinth (Arn: The Knight Templar, Beatles) sem stýrir og verður myndin gefin út síðar á þessu ári.