Scream hittir í mark

Hvað er betra en góður bíóhrollur á köldum og dimmum íslenskum janúardegi. Líklega ekki neitt! Það er því tilhlökkunarefni að ný Scream mynd komi í bíó núna á föstudaginn en mætt eru til leiks mörg gömul andlit úr fyrri myndum, þar á meðal hjónin fyrrverandi David Arquette og og Friends stjarnan Courteney Cox.

Kvikmyndaritið Variety birti um daginn fyrstu viðbrögð áhorfenda og gagnrýnenda við myndinni, sem leikstýrt er af Matt Bettinelli-Olpin og Tyler Gillett’s. Svo virðist sem Scream sé að hitta í mark. Hafa kvikmyndablaðamenn meðal annars kallað myndina hæfilega háværa, þrælgóða skemmtun og bestu Scream myndina síðan sú fyrsta var frumsýnd árið 1996.

Upprunalegu leikararnir Neve Campbell, Courteney Cox og David Arquette snúa öll aftur í þessari mynd eins og fyrr sagði en nýliðar eru In the Heights leikkonan Melissa Barrera, Mason Gooding, Jenna Ortega og síðast en ekki síst Jack Quaid.

Ghostface gríman komin á stjá

Opinber söguþráður myndarinnar er á þá leið að 25 árum eftir að röð hrottalegra morða skók hinn rólega bæ Woodsboro er nýr morðingi mættur á svæðið með Ghostface grímuna á trýninu. Hann byrjar að hrella ungmenni í bænum og um leið rifjast upp myrk leyndarmál úr sögu bæjarins.

Enginn Wes

Myndin er sú fyrsta í Scream seríunni ( þær eru alls fimm talsins ) þar sem hrollvekjugoðsögnin Wes Craven er ekki á bakvið myndavélina, en hann lést árið 2015.

Leikstjórarnir Bettinelli-Olpin og Tyler Gillett, sem ganga einnig undir listamannsnafninu Radio Silence, tóku við starfinu eftir að hafa heillað hrollvekjuunnendur með hinni rómuðu Ready or Not. „Þeir skrifuðu mér bréf og sögðust hafa orðið leikstjórar útaf Scream myndunum,“ sagði Campbell við Variety. „Þeir eru leikstjórar vegna Wes Craven. Þeir eru hrikalega spenntir að fá að vera hluti af þessari sögu og upp með sér að fá tækifæri til að leikstýra myndinni. Þeir vilja heiðra minningu Craven.“

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan og viðbrögð á Twitter þar fyrir neðan: