Segir Batman v Superman „algjört drasl“

Mel Gibson segir að hasarmyndin Batman v Superman hafi verið „algjört drasl“ í löngu viðtali við Deadline í tilefni af frumsýningu stríðsmyndarinnar Hacksaw Ridge.

mel gibson

Gibson leikstýrir Hacksaw Ridge og var staðið upp og klappað fyrir henni samfleytt í tíu mínútur að lokinni frumsýningu á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Þetta er fyrsta myndin sem Gibson leikstýrir í áratug eða eftir að hann varð sjálfum sér til skammar með því að úthúða gyðingum í aftursæti lögreglubíls, blindfullur.

Hacksaw Ridge var tekin upp í Ástralíu fyrir aðeins 40 milljónir dollara. Í framhaldinu ræddi Gibson um stærstu myndir sumarsins, þar á meðal ofurhetjumyndirnar, sem flestar kostuðu um 200 milljónir dollara.

„Ef þú eyðir svakalegum upphæðum, 180 milljónum dollara eða meira, þá hlýtur skatturinn að ná til þín og eftir það þarftu að gefa helminginn til sýningaraðilanna,“ sagði hann og spurði hvað Batman v Superman hefði kostað.

Þegar honum var sagt að hún hefði kostað um 250 milljónir dollara sagði hann myndina „algjört drasl“ og bætti við: „Ég er ekki hrifinn af svona löguðu. Vitið þið hver munurinn er á alvöru ofurhetjum og ofurhetjum úr myndasögum? Alvöru ofurhetjur þurftu ekki að vera í spandex-galla. Þannig að spandex hlýtur að kosta mikið.“