Sheeran leikur í Bridget Jones´s Baby

Ed Sheeran fer með hlutverk í þriðju myndinni um Bridget Jones sem er í undirbúningi. Söngvarinn vinsæli setti „sjálfu“ á Instagram af tökustað, þar sem aðalleikkonan Renee Zellweger er í bakgrunni.

ed sheeran

„Eyddi deginum sem leikari í nýju Bridget Jones-myndinni. Hreinlega elskaði það, þið eigið eftir að gera það líka,“ skrifaði hann.

Sheeran hefur áður leikið í þáttunum The Bastard Executioner, eftir höfund Sons of Anarchy, sem voru frumsýndir í september.

Tökur á nýju Bridget Jones-myndinni, Bridget Jones´s Baby, hófust í London í síðasta mánuði. Auk Zellweger verður Colin Firth áfram í hlutverki Mark Darcy. Einnig verður Patrick Dempsey á meðal leikara en Hugh Grant verður fjarri góðu gamni í þetta sinn.

Myndin er væntanleg í september á næsta ári.