Snjókarl Nesbø fær fyrstu stiklu – Fassbender er Harry Hole

Fyrsta stiklan er komin út fyrir kvikmynd byggðri á hinni geysivinsælli spennusögu Jo Nesbø, The Snowman, eða Snjókarlinn eins og bókin heitir í íslenskri þýðingu. Sagan fjallar um rannsóknarlögreglumanninn Harry Hole frá Osló í Noregi sem reynir klófesta morðingja sem kallaður er Snjókarlinn. Áður hefur kvikmyndin Headhunters verið gerð eftir sögu Nesbø.

Það er enginn annar en Michael Fassbender sem fer með hlutverk Hole.

Handrit myndarinnar skrifa Matthew Michael Carnahan, Hossein Amini og Peter Straughan.

Í myndinni mun Hole fá til rannsóknar mál konu sem er týnd, en hvarf hennar uppgötvast þegar bleikur klútur í hennar eigu finnst vafinn um háls snjókarls.

Hér er söguþráðurinn eins og hann birtist í kynningu á bókinni:

„Fyrsti snjórinn er kominn. Jonas vaknar einn í húsinu um miðja nótt og finnur ekki móður sína. Hann stígur í bleytu á gólfinu og sér að einhver hefur komið inn á skónum. Fyrir utan stofugluggann stendur einmanaleg vera: snjókarl baðaður fölu tunglsljósi. En hvers vegna horfir hann á húsið þeirra? Og af hverju er hann með trefilinn hennar mömmu um hálsinn?

Harry Hole hefur borist dularfullt bréf í pósti, undirritað „Snjókarlinn“. Hann grunar að hvarf móður Jonasar tengist þessu bréfi á einhvern hátt og setur saman lítinn rannsóknarhóp. Við athugun á gömlum lögregluskýrslum kemur í ljós að furðumargar ungar mæður, ýmist giftar eða í sambúð, hafa horfið á undanförnum árum. Allar um þetta sama leyti; snemma vetrar. Þegar fyrsti snjórinn fellur.“

Hlutirnir verða svo enn óhugnanlegri þegar menn fer að gruna að raðmorðingi sé snúinn aftur.

Rebecca Ferguson, J.K. Simmons, Charlotte Gainsbourg og James D´Arcy eru öll í leikhópnum ásamt Fassbender.

Leikstjóri er Tomas Alfredson. Myndin kemur í bíó hér á Íslandi 13. október nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: