Sólveig heillar ungdóminn

sólveig anspachLeikstjórinn Sólveig Anspach hlaut á dögunum ungdómsverðlaunin á frönskum kvikmyndadögum í Tübingen og Stuttgart í Þýskalandi fyrir franska kvikmynd sína frá árinu 2012, Queen of Montreuil.

Dagarnir fóru fram frá 30. október – 6. nóvember sl.

Sólveig leikstýrir myndinni og skrifar handritið ásamt Jean-Luc Gaget. Tveir Íslendingar leika stór hlutverk í myndinni, en það eru Didda Jónsdóttir og Úlfur Ægisson. Myndin var frumsýnd hér á landi á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík (RIFF) árið 2012.

Að auki voru tvær aðrar myndir eftir Sólveigu sýndar á kvikmyndadögunum en það eru íslensku kvikmyndirnar Stormviðri frá árinu 2003, sem var að mestu leyti tekin upp í Vestmannaeyjum, og Skrapp út frá árinu 2008. Queen of Montreuil er einmitt framhald af Skrapp út og leika Didda Jónsdóttir og Úlfur Ægisson sömu hlutverk í myndunum tveimur. Sögusviðið í Skrapp út er Ísland en Queen of Montreuil gerist í Frakklandi.

queen of

Nýjasta mynd Sólveigar er frönsk og heitir Lulu in the Nude, en hún var sýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík nú í haust og fer í almennar sýningar í Frakklandi í byrjun næsta árs.