Sonur Ivan Drago er hættulegur andstæðingur

Eftir hina vel heppnuðu Creed frá árinu 2015, eftir leikstjórann Ryan Coogler, er mynd númer tvö núna væntanleg í nóvember nk. Coogler er þó ekki með í þetta sinn, en hinn ungi og efnilegi Steven Caple Jr. er kominn í hans stað.

Eins og flestir ættu að vita þá er Creed 2 í hinni langlífu Rocky hnefaleikamyndaseríu, og er sú áttunda í þeirri röð.

Michael B. Jordan snýr aftur í hlutverki Adonis Creed, hnefaleikakappans og sonar Appollo Creed sem lét lífið í hnefaleikahringnum, eftir bardaga við sovétskrímslið Ivan Drago í Rocky 4.

Rocky sjálfur, eða Sylvester Stallone, snýr sömuleiðis aftur í Creed 2 í hlutverki þjálfarans, og Tessa Thompson, Phylicia Rashad, Andre Ward og Wood Harris eru einnig á sínum stað.

Í myndinni keppir Creed við engan annan en Viktor Drago, sem leikinn er af Florian Munteanu, son Ivan Drago, sem leikinn er af Dolph Lundgren, sem einnig snýr aftur í þessari mynd.

Tökum á myndinni lauk fyrr í þessum mánuði .

Eins og sést í fyrstu stiklu sem er nýkomin út þá þarf Adonis Creed nú að axla ábyrgð á fjölskyldunni, á sama tíma og honum býðst bardagi við stórhættulegan andstæðing, og Stallone, reynir að tala um fyrir piltinum.

Og auðvitað endar þetta allt í hnefaleikahringnum, þó að ýmiss konar drama og tilfinningar bærist um í aðalpersónunum fram að stóru stundinni.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan og nýtt plakat þar fyrir neðan: