Stikla kom Shining leikara á óvart

Fyrsta stiklan úr nýju Stephen King myndinni Doctor Sleep var frumsýnd nú á dögunum, en myndin er framhald hinnar sígildu The Shining frá árinu 1980, þar sem Jack Nicholson hræddi líftóruna úr heimsbyggðinni.

Danny Lloyd um það leyti sem hann lék í The Shining, þá fimm ára gamall.

Danny Lloyd, sem lék son persónu Jack Nicholson, Jack Torrance, í upprunalegu myndinni, Danny Torrance, segir að stiklan hafi komið honum á óvart. Persónan sem Danny lék í myndinni er yngri útgáfa af aðalpersónu nýju myndarinnar, en þar fer Ewan McGregor með hlutverk Danny Torrance fullorðins.

Mike Flanagan leikstýrir nýju myndinni en handritið byggir hann á samnefndri skáldsögu Stephen King frá árinu 2013.

Stiklan hefur fengið góðar viðtökur, og eru margir að reyna að ráða í hvað er nákvæmlega í gangi í stiklunni, sem er um þrjár mínútur að lengd.

Hættur að leika

Danny Lloyd er hættur að starfa sem leikari, og veitir afar fá viðtöl, að því er segir í frétt The Movie Web. Hann kennir líffræði í menntaskóla og stiklan kom honum ánægjulega á óvart.

„Ég var undrandi … hún leit mjög vel út. Ég var forvitinn, þar sem það er fín lína þegar unnið er á grunni þess sem Stephen King og Stanley Kubrick gerðu. Þarna virðast menn hafa fundið réttu leiðina.“

Myndin gerist eftir atburði The Shining, en nú er Dan Torrence orðinn fullorðinn og hittir unga stúlku sem býr yfir álíka dulrænum hæfileikum og hann, og gerir hvað hann getur til að vernda hana fyrir sértrúarsöfnuði sem er þekktur undir nafninu The True Knots, en liðsmenn safnaðarins nærast á börnum með yfirnáttúrulega hæfileika, til að öðlast eilíft líf.


Danny Lloyd er ekkert mikið að láta fólk vita að hann hafi leikið í The Shining, en fjölskylda og vinir eru dugleg að minna hann á það í gríni. „Þegar hún var á Netflix, þá horfðu börnin mín á og voru að gera grín að hárgreiðslunni.“

Loyd segist 100% ætla að sjá nýju myndina. „Ég vil sjá hana strax á frumsýningardegi.“

Danny Lloyd var einungis fimm ára gamall þegar hann lék aðalhlutverkið í myndinni á móti Jack Nicholson og Shelley Duvall. Hann segir að hann verði ekki mikið var við aðdáendur myndanna, nema af og til, og þá einkum eldri hrollvekjuaðdáendur.

Hér má lesa lengra viðtal við Danny Lloyd hjá The Hollywood Reporter.

Myndin kemur í bíó á Íslandi 8. nóvember nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: