Still Life fékk Gullna lundann á RIFF

Í gær, laugardag, lauk verðlaunaafhendingu tíundu RIFF-hátíðarinnar. Kvikmyndin Kyrralífsmynd (Still Life) í leikstjórn Uberto Pasalini vann aðalverðlaun keppninnar, Gullna Lundann.

IMG_0240

 

Hér tekur leikstjóri Kyrralífsmyndar Uberto Pasolini við Gullna lundanum úr hendi frú Vigdísar Finnbogadóttur, formanni dómnefndar. Ljósmynd: Ólöf Kristín Helgadóttir

Hér fyrir neðan má sjá alla verðlaunahafa RIFF 2012 ásamt rökstuðningi dómnefndar.

GULLNI LUNDINN

Uppgötvun ársins

STILL LIFE (KYRRALÍFSMYND) – Leikstjóri: Uberto Pasolini

Umsögn dómnefndar

„Í flokknum Vitranir á RIFF, Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, komu tólf kvikmyndir til álita. Allar eru þær fyrsta eða annað verk leikstjóra og voru að mati dómnefndar, hver á sinn hátt, í háum gæðaflokki. Það er því augljóst að vandi var að velja mynd til verðlauna. Hugsjónir og hæfileikar kvikmyndagerðarmanna síðustu ára, sem túlka þjóðfélagsmál eins og þau birtast víða í heiminum, varða mannkynið allt.

Dómnefndin samþykkti einróma að veita kvikmyndinni Still Life fyrstu verðlaun, Gullna lundann, fyrir listrænt gildi hennar og efnistök, en einnig fyrir næma túlkun og mannleg skilaboð sem leikstjóranum tekst að fanga.“

Aðrar viðurkenningar:

„Sérstaka viðurkenningu fær kvikmyndin Miss Violence fyrir styrk og hæfileika leikstjórans sem tekst að koma viðkvæmu viðfangsefni til skila, og þá einnig fyrir frábæran leik sem byggður er á mjög góðu handriti.“

„Dómnefndin ákvað að veita einnig viðurkenningu kvikmyndinni Betlehem, en hún er fyrsta kvikmynd leikstjórans og tekur á ágengu viðfangsefni. Einnig er eftirtektarverður ágætur leikur nýliða í þessari kvikmynd.“

Sigurmynd valin úr flokknum Vitranir, sem hefur á að skipa fyrstu eða annarri mynd leikstjóra.

Dómnefnd: Luciana Castellina, Loïc Magneron og Vigdís Finnbogadóttir.

FIPRESCI VERÐLAUNIN

FIPRESCI eru alþjóðleg samtök kvikmyndagagnrýnanda

STILL LIFE (KYRRALÍFSMYND) – Leikstjóri: Uberto Pasolini

„Still life er bíómynd um stillimyndir. Þetta er mynd um myndir af þeim sem lifa að eilífu. Aðalpersóna Still life, John, safnar fegurð í líf sitt. Hann vinnur með þá sem deyja einmanalegum dauðdaga. Myndlistarskilningur og vel hugsuð sjónræn vinna er styrkur myndarinnar. Samræðurnar eru af bókmenntalegum styrkleika og merkingin margræð. Þær eru fáar en vandaðar. Undirtextinn er þrunginn merkingu. Þótt þræðir myndarinnar séu tvinnaðir saman í lokin, og merking þess hvað ljósust í nafni myndarinnar, þá er á póetískan hátt nógu mikið skilið eftir opið. Still life er póetísk mynd.“

Sigurmynd valin úr flokknum Vitranir, sem hefur á að skipa fyrstu eða annarri mynd leikstjóra.

Dómnefnd: Rolf-Ruediger Hamacher, Mette Karlsvik og Börkur Gunnarsson.

UMHVERFISVERÐLAUN RIFF

Veitt heimildarmynd úr flokknum Önnur framtíð

Ekspeditionen til verdens ende (Leiðangur á enda veraldar) – Leikstjóri: Daniel Dencik

Umsögn dómnefndar:

„Expedition to the end of the world lýsir ferð vísindamanna og listamanna inn á svæði á norður grænlandi sem áður voru hulin ís. Hrikaleg fegurð svæðisins í bland við óborganleg samskipti og hugleiðingar áhafnarmeðlima fangar sérstakan andblæ, smæð mannsins og áhrif hans á hnöttinn, varnarleysi okkar og eyðingarmátt. Konseptlistamaður, líffræðingur, ljósmyndari og heimspekingur í leit að tilgangi lífsins, búa til smámynd af heiminum, örk á hjara veraldar. Hungraður ísbjörn sem brýst inn í neyðarskýli og hámar í sig ruslfæði, ísinn sem umlykur og læsir fólk næstum inni verður tákn fyrir ástand heimsins og hugsanlega okkar ef ekkert verður gert. “

Dómnefnd: Andri Snær Magnason, Guðmundur Hörður Guðmundsson og Margrét Vilhjálmsdóttir.

KVIKMYNDAVERÐLAUN KIRKJUNNAR

Mynd valin út flokknum Vitranir

The Lunchbox (Nesisboxið) – leikstjóri: Ritesh Batra

Umsögn dómnefndar:

„Nestisboxið er lit-, ilm- og bragðrík kvikmynd um samskipti fólks. Hún sýnir hve óralangt getur verið á milli fólks sem deilir híbýlum, en stutt á milli fólks sem hefur aldrei sést.

Nestisboxið er falleg kvikmynd sem miðlar nánd og hlýju í samskiptum þar sem einlæglega er hlustað, sorg og sigrum er deilt. Hún minnir á að nánd og hlýja skipta sköpum þegar þarf að brjóta upp lífsmynstur sem kæfa og fólk þrífst ekki lengur. Hún meðhöndlar samskipti fólks og samband kynslóða af nærfærni og hlýju.

Nestisboxið kallar fram hungur eftir innilegum samskiptum og góðum mat. Hún býður upp á endurtekið áhorf.“

Dómnefnd: Sr. Árni Svanur Daníelsson, Grétar Einarsson og Laufey Ásgrímsdóttir. Kvikmyndaverðlaun kirkjunnar voru veitt í áttunda skipti í ár.

BESTA ÍSLENSKA STUTTMYNDIN

Hvalfjörður – leikstjóri: Guðmundur Arnar Guðmundsson

Umsögn dómnefndar:

„Hvalfjörður dregur okkur inní átakanlegt sálarlíf tveggja bræðra sem búa í afskekktri sveit. Á einfaldan, ljóðrænan hátt tekst leikstjóranum að gera angistina ljóslifandi í huga áhorfandans. Næm kvikmyndatakan undirstrikar grámóskuna í náttúru, umhverfi og innra lífi bræðranna. Hljóðmynd, búningar, hár og förðun ramma myndina inn á afar fagmannlegum nótum og allur leikur er fyrsta flokks. Gríðarsterkt verk sem talar til manneskjunnar í okkur öllum.“

Önnur viðurkenning:

Skyssa (Sketch) – Leikstjóri: Stephen Barton

„Vel skrifuð, skemmtilega flókin saga sögð á einfaldan hátt. Dansar við klisjurnar án þess þó að falla fyrir þeim. Örugg leikstjórn og fantavel tekin mynd. Afburða leikur hjá hinum unga Kwesi Boakye sem og Joe Forbrich.“

Dómnefnd: Marteinn Thorsson, Hrönn Kristinsdóttir og María Reyndal.

GULLNA EGGIÐ

Veitt einum þátttakanda í Kvikmyndasmiðjunni

GOOD NIGHT (GÓÐA NÓTT) – Leikstjóri: Muriel D’Ansembourg

Umsögn dómnefndar:

„Gyllta eggið 2013 er veitt hinni ljómandi góðu og oft áður verðlaunuðu stuttmynd GOOD NIGHT, sem Muriel D’Ansembourg leikstýrði og Eva Sigurdardóttir framleiddi. Myndin er undir áhrif frá nýbylgju breskrar kvikmyndalistar í kvikmyndaskólanum í London og segir sögu tveggja 14 árastúlkna sem liggur á að fullorðnast og smakka á lífinu …eins og allir 14 ára krakkar virðast gera.“

Sérstaka viðurkenningu hlýtur kvikmyndin Yoel eftir Noa Yaffe frá Ísrael.

Dómnefnd: Helga Stephensen, Kristín Jóhannesdóttir og Giorgio Gosetti.

BRÍÓ VERÐLAUNIN

Besta hljóð í íslenskri stuttmynd, veitt í minningu Steingríms Eyfjörð.

Huldar Freyr Arnarson, Gunnar Óskarsson og Björn Viktorsson fyrir Hvalfjörð.

ÁHORFENDAVERÐLAUN RIFF

Í samvinnu við Mbl.is

Vi är bäst! (Við erum bestar!) – Leikstjóri: Lukas Moodysson

Kosið var um vinsælustu myndina á heimasíðu hátíðarinnar, riff.is og á mbl.is.

Hér er hægt að sjá yfirlit yfir allar myndir á RIFF 2013, söguþræði og stiklur úr öllum myndunum.

RIFF

 

 

Stikk: