Fjölmargir þekktir einstaklingar víða kvöddu okkur á árinu 2020; fólk sem hafði getið af sér gott orð í listaheiminum. Í hópi þeirra sem létust má nefna tónskáld á heimsmælikvarða, nokkrar skærustu leikkonur frá gullaldarárum Hollywood, upprennandi stórleikara, brautryðjandi Íslendinga, tvo fræga úr heimi Star Wars og uppáhalds James Bond leikara margra, svo dæmi séu nefnd.
Á meðal þeirra sem kvöddu má nefna eftirfarandi stjörnur og fagfólk úr breiðum heimi kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðarins.
Kirk Douglas
Leikarinn Kirk Douglas lést 5. febrúar síðastliðinn, 103 ára að aldri. Douglas átti að baki glæstan feril og var starfandi á árunum 1944-2008. Á meðal þekktustu mynda hans eru Champion, Spartacus, Lust for Life og The Bad and the Beautiful.
Lynn Cohen
Bandaríska leikkonan Lynn Cohen lést í febrúar, 86 ára að aldri, og var trúlega þekktust fyrir hlutverk sitt sem Magda í þáttunum Sex and the City og báðum bíómyndum sem gerðar voru í framhaldi þeirra.
Cohen lék einnig í mörgum kvikmyndum, meðal annars þeim Munich, The Hunger Games, They Came Together, Synecdoche, New York og Vanya on 42nd Street. Kom hún einnig fram í þáttunum Law and Order, Damages og Nurse Jackie.
Caroline Flack
Caroline Flack, bresk sjónvarpsstjarna, var best þekkt fyrir að vera kynnir eða þáttastjórnandi bresku raunveruleikaþáttaraðarinnar geysivinsælu Love Island þar sem einhleyp ungmenni keppast um ástir hvers annars. Hún lést í febrúar, fertug að aldri.
Max von Sydow
Sænski leikarinn Max von Sydow lést í mars, 90 ára að aldri, en hann var lengi talinn einn ástsælasti leikari Svía.
Von Sydow lék í fleiri en hundrað kvikmyndum á ferli sínum og var tvívegis tilnefndur til Óskarsverðlauna (fyrir Awakenings og Extremely Loud & Incredibly Close). Hann er sennilega þekktastur fyrir hlutverk sín í The Exorcist, Flash Gordon, Hannah and Her Sisters, Sjöunda innsiglinu og mörgum fleirum.
Irrfan Khan
Indverski gæðaleikarinn Irrfan Khan lést í apríl, 53 ára að aldri. Leikarinn er hvað þekktastur á heimsvísu fyrir að hlutverk í kvikmyndunum Slumdog Millionaire, Life of Pi, The Lunchbox, The Amazing Spider-Man og þótti hann einnig eftirminnilegur í Jurassic World.
Khan lést vegna sýkingar í ristli en hann hafði áður greinst með sjaldgæfa tegund krabbameins.
Honor Blackman
Breska leikkonan Honor Blackman, sem þekktust er fyrir að hafa leikið Pussy Galore í James Bond myndinni Goldfinger, lést í apríl, 94 ára að aldri. Blackman var einnig þjálfuð í bardagaíþróttum sem tryggði henni hlutverk Galore.
Blackman naut jafnframt vinsælda fyrir að vera annar söngvari ’60s slagarans Kinky Boots og var einnig þekkt fyrir leik sinn sem Cathy Gale í sjónvarpsþáttunum Avengers, þar sem Diana Rigg fór með annað aðalhlutverkið.
Allen Daviau
Bandaríski kvikmyndatökumaðurinn Allen Daviau lést í apríl MPTF spítalanum í Los Angeles, 77 ára að aldri og voru dánarorsök sögð vera af völdum COVID-19.
Daviau var gífurlega virtur í sínu fagi og var fimm sinnum tilnefndur til Óskarsverðlauna, þar á meðal fyrir kvikmyndirnar E.T. the Extra Terrestrial, Empire of the Sun, The Color Purple og Van Helsing. Daviau vann töluvert með kvikmyndagerðarmanninum Steven Spielberg í gegnum tíðina og voru þeir miklir mátar.
Shirley Knight
Bandaríska leikkonan Shirley Knight átti farsælan feril og vakti mikla athygli fyrir hlutverk í kvikmyndunum The Dark at the Top of the Stairs og Sweet Bird of Youth á sjöunda áratug síðustu aldar. Sýndi hún einnig góða takta í myndunum As Good as it Gets, Grandma’s Boy og Divine Secrets of the Ya-Ya Sisterhood.
Leikkonan lék í fleiri en fimmtíu kvikmyndum og var víða virk í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og á sviði.
Knight var 86 ára þegar hún féll frá í apríl.
Jerry Stiller
Gamanleikarinn Jerry Stiller lést í maí, 92 ára gamall, á heimili sínu í faðmi sinnar fjölskyldu, til að mynda sonar síns, Ben. Stiller hafði reglulega slegið í gegn og þá sérstaklega á sjónvarpsskjánum. Hann fór meðal annars með hlutverk Frank Constanza í Seinfeld og Arthur Spooner í The King of Queens. Hann skaut einnig upp kollinum í kvikmyndum eins og Heavyweights, Zoolander og báðum Hairspray-myndunum svo dæmi séu nefnd.
Fred Willard
Bandaríski gamanleikarinn Fred Willard lést í maí, 86 ára að aldri. Willard hafði víða dúkkað upp en á meðal hans þekktustu eru í vinsælum myndum á borð við This is Spinal Tap, Waiting for Guffman og þáttunum Modern Family. Má þó heldur ekki gleyma Idle Hands, Anchorman og Best in Show.
Ian Holm
Breski leikarinn Ian Holm átti gífurlega flottan leikferil en var hvað þekktastur fyrir leik sinn sem Bilbo Baggins í Lord of the Rings-þríleiknum, sem Sam Mussabini í Chariots of Fire, þar sem hann hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna, og að ógleymdum Ash í Alien.
Á meðal fleiri kvikmynda sem Holm lék í með eftirminnilegum hætti eru Brazil, Big Night, The Sweet Hereafter, The Madness of King George, The Fifth Element, eXistenZ, The Day After Tomorrow og The Aviator. Síðasta hlutverk hans var sem Bilbo í myndinni The Hobbit: The Battle of Five Armies.
Holm lést í júní, 88 ára að aldri, vegna veikinda í tengslum við Parkinsons sem hann hafði glímt við undanfarin ár.
Carl Reiner
Leikarinn og skemmtikrafturinn Carl Reiner féll frá af náttúrulegum orsökum í júní, 98 ára að aldri. Reiner sló heldur betur í gegn á sjöunda áratugnum sem skapari, framleiðandi, handritshöfundur og leikari í þáttunum The Dick van Dyke Show.
Reiner kom einnig fram í myndum á borð við It’s a Mad, Mad, Mad, Mad, World, The Russians Are Coming, the Russians Are Coming og Ocean’s-þríleiknum. Reiner leikstýrði grínmyndinni The Jerk með Steve Martin í aðalhlutverki, auk hinnar sígildu The Man with Two Brains, og kom hann fram í fjölda annarra sjónvarpsþátta, þar á meðal Two and a Half Men.
Ennio Morricone
Ítalski tónlistarmaðurinn Ennio Morricone var á meðal fremstu og þekktustu tónskálda kvikmyndasögunnar og þekktur fyrir ótalmörg stef sem hafa lengi verið talin sígild.
Frá árinu 1946 samdi Morricone samið rúmlega 500 tónverk fyrir kvikmyndir og sjónvarp auk þess sem hann hefur samið um 100 verk í klassískum stíl. Morricone lést í júlí, 91 árs að aldri.
Kelly Preston
Bandaríska leikkonan Kelly Preston, lést í júlí, 57 ára gömul. Preston greindist með brjóstakrabbamein fyrir tveimur árum.
Leikkonan var fjölmörgum kunnug og fór með eftirminnileg hlutverk í kvikmyndunum Mischief, Jerry Maguire, Twins, Nothing to Lose og Sky High. Þar að auki birtist hún nokkrum sinnum á hvíta tjaldinu við hlið eiginmanns síns, síðast í glæpamyndinni Gotti frá árinu 2018. Hún hafði einnig starfað sem fyrirsæta.
Olivia de Havilland
Bandaríska leikkonan Olivia de Havilland lést í júlí, 104 ára að aldri, og er öruggt að segja að hún hafi farið víðan völl á fjölbreyttum ferli. Hún lék meðal annars í Gone With the Wind, The Adventures of Robin Hood auk þess að hafa hlotið Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndunum To Each His Own og The Heiress.
Alan Parker
Leikstjórinn Alan Parker átti að baki flottan feril og er hvað þekktastur fyrir fjölda tónlistarmynda, meðal annars söngleikina Bugsy Malone, Evita, The Wall með hljómsveitinni Pink Floyd og músíkmyndirnar Fame og The Commitments. Þá má heldur ekki gleyma hinni sígildu Midnight Express, kvikmyndinni Angel Heart, og ber að geta að kvikmyndir Parkers hlutu alls tíu Óskarsverðlaun og nítján BAFTA-verðlaun.
Auk þess að leikstýra fjölda kvikmynda var Parker stjórnarformaður Kvikmyndastofnunar Bretlands og breska kvikmyndaráðsins á sínum tíma. Elísabet Bretadrottning sló hann til riddara árið 2002.
Parker hafði glímt við langvarandi veikindi og var 76 ára þegar hann lést á heimili sínu í júlí.
Gísli Rúnar Jónsson
Leikarinn, leikstjórinn og þúsundþjalasmiðurinn Gísli Rúnar Jónsson lést í júlímánuði, 67 ára að aldri. Gísli varð þjóðkunnur sem annar helmingur Kaffibrúsakarlanna, gamantvíeyki sem hóf göngu sína árið 1972. Hann kom einnig að fjölda Áramótaskaupa, sem leikari, handritshöfundur eða leikstjóri, frá 1981 til 1994.
Á meðal fleiri gamanþátta sem voru í umsjón hans má nefna Fasta liði eins og venjulega, sem voru sýndir 1985 í Sjónvarpinu, og Heilsubælið í Gervahverfi sem komu út ári síðar og mörkuðu tímamót sem fyrsta gamanþáttaröð Stöðvar 2. Lék Gísli einnig í fjölmörgum kvikmyndum, til að mynda Stellu í orlofi, Hvítum mávum, Blossa 810551 og Magnúsi. Síðasta hlutverk Gísla var í gamanmyndinni Amma Hófí.
Chadwick Boseman
Bandaríski leikarinn Chadwick Boseman var 43 ára að aldri þegar hann lést síðastliðinn ágúst. Banamein hans var ristilskrabbamein og voru eiginkona hans og nánasta fjölskylda við dánarbeð hans.
Boseman varð heimsfrægur fyrir hlutverk sitt sem Black Panther úr ofurhetjuheimi Marvel. Hin samnefnda mynd frá árinu 2018 sló hvert aðsóknarmetið á eftir öðru og varð hún jafnframt fyrsta myndin gerð eftir teiknimyndasögu sem hlaut tilnefningu fyrir bestu mynd á Óskarsverðlaununum.
Fyrr á ferlinum hafði Boseman vakið mikla athygli fyrir túlkun sína á tónlistargoðinu James Brown í myndinni Get on Up og þótti hann eftirminnilegur í myndum á borð við Da 5 Bloods eftir Spike Lee, Gods of Egypt og 42, sem fjallaði um hafnaboltahetjuna Jackie Robinson. Til stóð að hann yrði væntanlegur í framhaldsmynd Black Panther árið 2022.
Diana Rigg
Breska leikkonan Diana Rigg var á meðal virtustu leikkvenna í Bretlandi og hún hefur meðal annars verið öðluð.
Rigg féll frá í september, 82 ára að aldri og sögð hafa látist friðsamlega á heimili sínu. Leikkonan varð heimsfræg fyrir hlutverk sitt sem Emma Peel í bresku spennuþáttunum The Avengers í sjónvarpi á sjöunda áratugnum og lék einnig í James Bond-myndinni On Her Majesty’s Secret Service að ógleymdri stórsnilldinni The Great Muppet Caper. Margir hverjir þekkja hana einnig sem Olenna Tyrell úr Game of Thrones.
Bryndís Pétursdóttir
Leikkonan Bryndís Pétursdóttir lést 21. september síðastliðinn, 92 ára að aldri. Ferill hennar náði yfir hálfa öld hjá Þjóðleikhúsinu en hún var jafnframt fyrsta íslenska leikkonan til að fara með burðarhlutverk í bíómynd. Bryndís fór með hlutverk Sigrúnar í kvikmyndinni Milli fjalls og fjöru frá árinu 1949, fyrstu íslensku kvikmyndinni í fullri lengd.
Fór Bryndís einnig með aðalhlutverkið í Niðursetningnum frá 1951 og tók hún síðar að sér stórt hlutverk í sjónvarpsmyndinni Vandarhögg (1980) eftir Hrafn Gunnlaugsson.
Conchata Ferrell
Conchata Ferrell þekktu margir hverjir þáttunum Two and a Half Men, þar sem hún fór með hlutverk Bertu. Ferrell kom fram í öllum tólf þáttaröðunum og þótti mikill senuþjófur. Kom hún einnig fram í þáttum á borð við Friends og ER og kvikmyndunum Edward Scissorhands, True Romance, Erin Brockovich og Krampus.
Ferrell var 77 ára að aldri þegar hún lést síðastliðinn október. Hafði hún glímt við ýmsa heilsubresti frá því í fyrravetur. Þá fékk hún fékk nýra- og skjóðubólga og fór í 10 mínútna hjartastopp. Leikkonan var í faðmi fjölskyldu sinnar á sjúkrahúsinu þegar hún féll frá.
David Prowse
Leikarinn Dave Prowse lést þennan nóvember, 85 ára að aldri, eftir stutt veikindi, en hann er hvað þekktastur fyrir að hafa leikið Svarthöfða í upprunalegu þremur Stjörnustríðsmyndunum. Glöggir vita þó að röddin sjálf var í höndum James Earl Jones.
Prowse hóf feril sinn sem kraftlyftingamaður og keppti meðal annars fyrir hönd Bretlands á heimsveldisleikunum árið 1962. Áður en Prowse tók að sér hlutverk Svarthöfða hafði hann meðal annars unnið við einkaþjálfun og þjálfaði til að mynda Christopher Reeve fyrir hlutverk hans í Superman.
Sean Connery
Skoski stórleikarinn Sean Connery var sá fyrsti sem lék spæjarann James Bond á hvíta tjaldinu. Hann fór með hlutverk í alls sex Bond-kvikmyndunum á árunum 1962 til 1971 og í Bond-kvikmyndinni Never Say Never Again árið 1983. Mörgum þótti Connery besti Bond-leikarinn en hann var gjarnan útnefndur sem slíkur í skoðanakönnunum. Leikarinn átti heldur flottan feril og er ekki síður eftirminnilegur sem faðir titilhetjunnar í Indiana Jones and the Last Crusade.
Connery lést þann 31. október síðastliðinn, 90 ára að aldri.
Hugh Keays-Byrne
Ástralski leikarinn Hugh Keays-Byrne féll frá í byrjun desember og er þekktastur fyrir að leika tvö ólík illmenni í Mad Max-seríunni.
Fyrst kom leikarinn við sögu sem karakterinn Toecutter í upprunalegu Mad Max myndinni frá 1979 og snéri síðan aftur sem hinn alræmdi Immortan Joe í Fury Road frá 2015, 36 árum eftir útgáfu fyrstu myndarinnar. Keays-Byrne lék í yfir 50 kvikmyndum og sjónvarpsþáttaröðum og spannaði ferill hans heila fimm áratugi.
Kim Ki-Duk
Suður-Kóreski kvikmyndagerðarmaðurinn Kim Ki-Duk lést nú í desember, 59 ára að aldri. Ki-Duk var einn frægasti leikstjóri Suður-Kóreu; afkastamikill og hafði margsinnis unnið til verðlauna fyrir kvikmyndir sínar. Var leikstjórinn þó líka umdeildur maður og á tíðum harðlega gagnrýndur. Hann leikstýrði yfir 20 kvikmyndum í fullri lengd og var þekktur fyrir listrænan, súrrealískan stíl.
Ki-Duk lést á sjúkrahúsi í Lettlandi vegna COVID-19 og hafði hann verið að glíma við alvarleg einkenni. Hann hafði verið í miðjum undirbúningi á kvikmynd þegar veikindin hófust.
Tommy „Tiny“ Lister
Tommy Lister þekkja margir úr Friday-myndunum, The Fifth Element, The Dark Knight og mörgum fleiri kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Lister var oft kallaður „Tiny“ en var hann þó rétt tæpir tveir metrar á hæð. Hann lést í desember, 62 ára að aldri og er sagður hafa sýnt einkenni Covid-19.
Jeremy Bulloch
Breski leikarinn Jeremy Bulloch lést á dögunum 75 ára að aldri, en hann er mörgum Stjörnustríðsunnendum kunnugur sem mannaveiðarinn Boba Fett. Bulloch hafði átt við heilsuvandamál að stríða og hafði einnig glímt við Parkinsons-sjúkdóminn um nokkurra ára skeið.
Ferill Bullochs og sjónvarpi spannaði hálfa öld en auk Stjörnustríðs lék hann í James Bond myndinni Octopussy árið 1983 og sjónvarpsþáttum á borð við Dr. Who á sjöunda áratug síðustu aldar.