Syngur með Sandler

jenniferÓskarsverðlaunaleikkonan og Grammyverðlaunasöngkonan Jennifer Hudson mun leika í næstu Netflix mynd gamanleikarans Adam Sandler.

Myndin, sem heitir Sandy Wexler, og á að gerast á tíunda áratug síðustu aldar, fjallar um Sandy Wexler, sem Sandler leikur, mann sem leitar að hæfileikafólki í Los Angeles, og er með á sínum snærum hóp af sérkennilegum skjólstæðingum, sem allir eru jaðarfólk í skemmtanabransanum.

Ýmislegt breytist þegar hann verður ástfanginn af nýjasta skjólstæðingi sínum, hæfileikaríkri söngkonu að nafni Courtney Clarke, sem Hudson leikur, en hann uppgötvar hana í skemmtigarði.

Steven Brill, sem stýrði síðustu Netflix mynd Sandler, The Do-Over, mun leikstýra þessari nýju mynd eftir handriti Paul Sado, Dan Bulla og Sandler.

Myndin er hluti af samningi Sandler við Netflix, um gerð fjögurra bíómynda, sérstaklega fyrir vídeóveituna.

Tökur hefjast í Los Angeles 2. ágúst nk. og myndin verður frumsýnd á Netflix um allan heim árið 2017.

Sandler hefur nú þegar lokið við tvær myndir af samningi sínum við Netflix: The Ridiculous 6, sem Netflix sagði að hefði verið vinsælasta mynd á veitunni á fyrstu 30 dögum í sýningum; og síðan The Do-Over, sem var frumsýnd í maí sl.

Hudson sló í gegn í úrslitum hæfileikakeppninnar American Idol, og vann Óskarsverðlaun og Golden Globe verðlaun fyrir túlkun sína á Effie White í Dreamgirls frá árinu 2006.

Hún sást síðast í Spike Lee myndinni Chi-Raq frá 2014 og myndinni Black Nativity frá árinu 2013.

Hún lék einnig nýlega í sjónvarpsmyndinni Confirmation á móti Kerry Washington, og þreytti frumraun sína nýlega á sviði á Broadway í leikritinu The Color Purple.