The Avengers var tekin á iPhone


Eða allavega nokkur skot af myndinni…

Þetta kom fram í viðtali við Seamus McGarvey, sem er myndatökumaður myndarinnar. Ekki nóg með að skotin verði í myndinni, þau eru í stiklunni sem er komin á netið. Hvaða skot eru það – við getum aðeins reynt að giska, hann talaði ekkert um það. Þetta kom fram í viðtali við The Irish Film & Television Network, sem annars fjallaði mest um vinnu myndatökumannsins á We Need To Talk About Kevin með Tilda Swinton. Tilvitnunin var nokkurnvegin svona:

„Fegurð kvikmyndalistarinnar felst í því að valkostirnir sem maður tekur byggjast á því sem maður hefur við höndina. Á The Avengers, tók ég nokkur skot á iPhone símann – og þau enduðu í myndinni. Reyndar eru þau í trailernum! Ég skil að stundum er ekkert val, og þú verður að velja það ódýrasta, en ef þú hefur takmarkað val getur þú samt tekið ákvarðanir sem hafa áhrif á útlit myndarinnar.“

The Avengers verður ekki fyrsta kvikmyndin sem nýtir sér myndavél iPhone símans, Kóreski leikstjórin Park Chan-Wook (Oldboy) tók upp hálftíma langa stuttmynd eingöngu með iPhone. Sú mynd hefur þó ekki sést utan Kóreu ennþá. En geta sérfræðingar sagt mér, er eitthvað skot í Avengers trailernum sem er grunsamlega iPhone-legt?