Thor sakaður um kynþáttahatur

Margir bíða eflaust spenntir eftir næstu ofurhetjumyndinni frá Marvel, Thor, en hún á svo sannarlega undir högg að sækja þessa dagana. Hópur sem kallar sig Council of Conservative Citizens gagnrýnir Marvel harkalega fyrir að ráða leikarann Idris Elba, en CofCC hvetur nú fólk um allan heim til að forðast myndina.

Idris Elba, sem hefur leikið í myndum á borð við RocknRolla en er hvað þekktastur úr sjónvarpsþáttunum The Wire, mun leika norska guðinn Heimdall í kvikmyndinni um Þrumuguðinn Þór. Þetta fer vægast sagt fyrir brjóstið á þeim hjá CofCC sem eru ekki par sáttir með að svartur leikari skuli eiga að leika norskan guð. Í yfirlýsingu varðandi málið segja þeir,

„Fyrst voru það siðferðisleg gildi okkar og nú eru norrænu guðirnir ekki öruggir. Það virðist vera skoðun Marvel að hvítt fólk má ekki lengur eiga neitt útaf fyrir sig. Nú vilja þeir endurgera norska guði og gefa þeim svarta húð, sem er gríðarlega móðgandi. Nú mun Heimdallur, sem er einnig þekktur sem „Hvítasti Guðinn“ vera leikinn af Hip Hop DJ Elba.“

Elba sjálfur hefur sagt skoðun sína á málinu en í nýlegu viðtali segir hann, „Þór er göldróttur, er það ekki? Hann á hamar sem flýgur til hans þegar hann smellir fingrum. Það er í góðu lagi, en húðlitur minn er það ekki? Ef þú veist eitthvað um norrænu guðina líta þeir ekki út eins og ég, en svona er þetta. Ég held að þetta sé merki um breytta tíma og mér finnst það gott.“

CofCC eru ekki einir um að vera ósáttir því margir aðdáendur Þórs og Heimdalls úr myndasögunum hafa einnig kvartað. Þeir benda á að þeir séu kallaður kynþáttahatarar fyrir þessa skoðun sína en spyrja hvernig væri farið að málum ef Brad Pitt ætti að leika ofurhetjuna Black Panther frá Marvel, en persóna sú er afrísk.

Thor verður frumsýnd á næsta ári og verðum við því að bíða og sjá hvernig Idris Elba stendur sig í hlutverki Heimdalls, en hvað finnst ykkur um þetta allt saman?

– Bjarki Dagur