Tommy Lee Jones veit ekkert hvað er í gangi

Leikarinn úrilli Tommy Lee Jones er þekktur fyrir að gera jafnvel hæfustu blaðamönnum erfitt fyrir í viðtölum, en hann gefur afar stutt svör og reynir hvað hann getur að niðurlægja spyrjandann. Þessi úrilli stórleikari veitti tímaritinu NY Magazine nýlega viðtal til að kynna The Sunset Limited, væntanlega sjónvarpsmynd sína, þegar tal barst að Captain America og Men In Black 3.

„Það er ein vika í að framleiðslu lýkur á Men In Black 3.“ sagði Jones, en aðspurður hvað myndin fjallaði um svaraði hann; „Ég hef ekki hugmynd. Það er enn stór hluti handritsins óskrifaður.“

Eins og áður segir fer Jones með aukahlutverk í stórmyndinni Captain America, en NY Magazine spurði leikarann hvað hann væri að gera í myndinni. „Ég spyr sjálfan mig þessarar spurningar á hverjum degi. Persónuna sem ég leik hafið þið séð þúsund sinnum áður.“

– Bjarki Dagur