Vildi sleppa sterkum persónum lausum

Kvikmyndin Rökkur, verður heimsfrumsýnd þann 4. febrúar næstkomandi á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í Svíþjóð, eins og við sögðum frá hér á Kvikmyndir.is á dögunum. Rökkur er dramatískur sálfræðiþriller með hrollvekjandi ívafi og ein fyrsta íslenska kvikmyndin sem fjallar alvarlega um ástarsamband tveggja manna.

rokkur-poster

Í tilefni af frumsýningunni svaraði Erlingur Óttar Thoroddsen leikstjóri myndarinnar, nokkrum spurningum kvikmyndir.is:

1. Hvaða þýðingu hefur það að myndin sé valin sem lokamynd á Gautaborgarhátíðina?

Það er gríðarlega mikill heiður fyrir okkur, og kom okkur sömuleiðis mjög á óvart. Rökkur er mynd sem var ekki beinlínis gerð á hefðbundinn hátt — við tókum hana upp á 15 dögum með sirka 10 manna tökuliði — svo það er ákveðin viðurkenning fyrir okkur þegar hátíð eins stór og Gautaborg tekur eftir svona lítilli mynd og vill varpa ljósi á hana.
2. Hvaðan kom hugmyndin að sögunni í Rökkri?

Það voru nokkrir þættir sem spiluðu inn í að Rökkur varð til:

Mig langaði að gera mjög litla hrollvekju á Íslandi sem yrði auðvelt að framleiða fyrir lítið fjármagn, þannig að ég var að velta fyrir mér hugmyndum sem þyrftu bara tvo leikara og einn tökustað. Mér hefur alltaf fundist spennandi hugmyndin um að taka tvær sterkar persónur og sleppa þeim lausum á afskekktum stað, og sjá svo hvað gerist. Það er mjög krefjandi verkefni — maður þarf að passa upp á að það sé nóg í sögunni til að halda athygli áhorfenda — en það var í sjálfu sér skemmtileg áskorun.

Svo gerðist það að samband sem ég var í slitnaði, og ég fór mikið að velta fyrir mér öllu því ósagða í sambandinu sem kannski varð til þess að það gekk ekki upp. Allt sem mig langaði að segja núna, þegar það var orðið of seint. Og líka pælingin um efann sem fylgir öllum samböndum og/eða slitum: er þetta rétt ákvörðun, er þetta manneskjan sem er rétt fyrir mig, hvað ef þetta voru mistök, o.s.frv., o.s.frv.

Þannig að ég var í smá bömmer-ástandi, með allar þessar pælingar á heilanum, og á sama tíma að reyna að hugsa upp hugmynd af lítilli íslenskri mynd … og þá allt í einu fór Rökkur að verða til. Hvað ef manneskjurnar á afskekkta staðnum eru tveir strákar sem voru einu sinni par en eru núna hættir saman og þurfa að díla við þessar spurningar? Ég hafði aldrei séð neitt slíkt í íslenskri mynd, og fannst hugmyndin þess vegna strax mjög spennandi. Og handritið eiginlega skrifaði sig sjálft eftir það. Fyrstu drögin voru kláruð á innan við mánuði, og svo fórum við beint í að koma framleiðslunni af stað.
3. Muntu halda þig við hrollvekju/spennutryllana í framtíðinni, eða sérðu fyrir þér annarskonar myndir – gaman – ást – osfrv.

Það er í raun og veru ekki meðvitað plan hjá mér að halda mig við hrollvekjuna í framtíðinni, en ég get ekki neitað því að það sem ég skrifa endar yfirleitt á því að fara út í myrka sálma. Ég er alæta á bíómyndir yfir höfuð, svo ég væri mjög til í að reyna fyrir mér í annars konar tegundum ef handritið talar til mín, eða ef ég fæ einhverja frábæra hugmynd. Eina greinin sem ég ætla mér að vinna í á einhverjum tímapunkti er vísindaskáldsagan. Ef mér tekst að gera mína útgáfu af „áhöfn í dularfullum leiðangri á geimskipi“-mynd einhvern tímann — í anda Alien eða Solaris/Sunshine/Event Horizon — þá verður lífstakmarkinu náð og ég get sest í helgan stein.
4. Hvar býrðu og starfarðu?

Ég bý meirihluta árs í New York, þar sem ég var í námi, en ég eyði talsverðum tíma á Íslandi líka. Það fer svolítið eftir verkefnum — það er frábært að geta unnið bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum
5. Hvernig er að vera íslenskur kvikmyndagerðarmaður í dag?

Það er kannski erfitt fyrir mig að segja til um það, því meirihlutinn af myndunum sem ég hef gert voru teknar upp í Bandaríkjunum. Rökkur er fyrsta stóra verkefnið sem ég geri á Íslandi, og það var algjörlega frábær reynsla. Íslendingar eru upp til hópa stórkostlega duglegir og fagmannlegir í því sem þeir taka sér fyrir hendur.

Í Bandaríkjunum, og kannski sérstaklega í New York, er mjög öflugt og lifandi umhverfi í kringum „óháðar” kvikmyndir — ódýrari og minni myndir sem geta oft verið stökkpallur fyrir kvikmyndagerðarfólk út í stærri verkefni. Mér finnst svolítið vanta svoleiðis umhverfi á Íslandi, eða stuðning við það. Það snýst kannski líka svolítið um viðhorf. Í Bandaríkjunum þykja þessar óháðu myndir spennandi, því þar er fólk að taka áhættu og gera óhefðbundna hluti. Íslenskar myndir hafa verið afskaplega „safe“ síðustu áratugina, fyrir minn smekk. En það virðist vera að breytast. Bara á síðustu árum hefur verið fjölgun á nýjum, óháðum íslenskum myndum, sem mér finnst frábær þróun.

Og það er líka slatti af frábæru fólki á Íslandi sem styður vel við unga kvikmyndagerðarmenn. Við hefðum t.d. aldrei getað gert Rökkur ef Sena hefði ekki haft trú á okkur, og þegar ég lít til baka þá hljómaði planið sem við kynntum fyrir Senu örugglega eins og eitthvað brjálæði, svo ég er afskaplega þakklátur þeim fyrir að taka þessa áhættu með okkur.
6. Þú segir að þetta sé: „fyrsta íslenska kvikmyndin sem fjallar alvarlega um ástarsamband tveggja manna“. Er þetta umfjöllunarefni sem skiptir þig máli persónulega.

Já, skiptir mig mjög miklu máli persónulega. Það er hægt að telja á fingrum annarrar handar þær íslensku kvikmyndir sem innihalda vel skrifaðar samkynhneigðar persónur, og það eru ennþá færri myndir sem leyfa þeim persónum að vera í fyrirrúmi í sögunni. Mér finnst það skipta miklu máli fyrir íslenska kvikmyndagerð yfir höfuð að við segjum sögur alls kyns fólks, og það er ennþá langt í land að raddir allra fái að heyrast. Þegar ég skrifaði Rökkur, þá var ég mjög meðvitaður um, að það er í raun og veru engin íslensk kvikmynd sem fjallar opinskátt og alvarlega um ástarsamband tveggja fullorðinna manna. Við erum þjóð sem stendur afskaplega framarlega í réttindabaráttu hinsegin fólks, stöndum fyrir einni stærstu og fjölskylduvænustu Hinsegin daga skrúðgöngu í heiminum (miðað við höfðatölu), og teljum okkur almennt vera mjög opin. En hinsegin Íslendingar sjá sig næstum aldrei á hvíta tjaldinu eða í íslensku sjónvarpi, sem mér finnst afskaplega athyglisvert.
7. Hvenær er von á Stiklu?

Mjög bráðlega! Við erum bókstaflega að klára eftirvinnsluna í þessum töluðu orðum, svo það hefur forgang. En við erum með ýmislegt spennandi sem við ætlum að rúlla út á næstu vikum.