Viola Davis og geggjaðar bardagasenur

Kvikmyndin The Woman King, sem kemur í bíó í dag, er mögnuð saga Agojie, harðsnúinnar kvennahersveitar sem verndaði afríska konungsríkið Dahomey á 19. öld af eldmóði sem seint verður toppaður.

Óárennileg.

The Woman King er innblásin og byggð á raunverulegum atburðum og fjallar um epíska og tilfinningaríka rússíbanareið hershöfðingjans Nanisca, sem Óskarsverðlaunahafinn Viola Davis leikur, er hún þjálfar næstu kynslóð nýliða og undirbýr þær fyrir baráttu gegn óvini sem er staðráðinn í að ráðast gegn og tortíma lifnaðarháttum þeirra. Sumt er þess virði að berjast fyrir því… „Mér fannst The Woman King vera mikilvæg saga vegna þess að ég gat samsamað mig sjálfa henni,“ segir Viola Davis, sem leikur ekki aðeins aðalhlutverkið í myndinni heldur er hún jafnframt framleiðandi hennar.

Kvenleiki og kveneðli

„Ég sá kvenleika og kveneðli mitt í henni. Ég sá hörundslit minn í henni. Ég sá í henni mikilvægan kafla í mannkynssögunni. Ég hef alltaf sagt að hver einasti hluti sögunnar er mikilvægur, jafnvel smákaflarnir. Ég held að heiminn þyrsti í að sjá og heyra þessa sögu.“

Ógnvænlegustu stríðsmennirnir

Agojie-stríðskonurnar lifðu til að þjóna og vernda Dahomeykonungdæmið og konung þess. Dahomey-konungdæmið var eitt hið auðugasta á þessum tíma og verndarar þess, Agojie-stríðskonurnar, voru ógnvænlegustu stríðsmenn Vestur-Afríku, á svæðinu sem í dag nefnist Benín.

Menningarheimur Dahomey mat konur mikils og þjóðfélagsgerðin var einstök og gríðarlega frjálslynd. Fullkomið jafnræði var milli kynja í öllum opinberum stöðum, alveg upp eftir öllum valdastiganum. Hvort sem var litið til hershöfðingja, fjármálaráðgjafa eða trúarleiðtoga – alls staðar var fullt jafnræði milli kynjanna.

Aldrei sést áður

Svo hátt náði þetta fyrirkomulag að konungurinn sæmdi konu titlinum Kpojito – kvenkonung – og af því er nafn myndarinnar dregið. „Í þessari sögu höfum við tækifæri til að endurskilgreina það hvað felst í því að vera kona,“ segir Gina Prince-Bythewood leikstjóri. „Svona höfum við aldrei séð áður. Ég elska sögur eins og þessa sem ramma inn upp á nýtt kvenleikann og styrkleika. Þetta eru raunverulegar konur sem gerðu eitthvað ofurmannlegt án þess að vera ofurhetjur. Ég bara varð að færa þessar konur á hvíta tjaldið.“

Fróðleikur:

The Woman King fékk A+ CinemaScore-einkunn frá áhorfendum sem er mjög sjaldgæft.

Lupita Nyong’o var fyrst boðið hlutverk Nanisca sem Viola Davis fékk síðar. Lupita hafnaði hlutverkinu vegna þess að hún komst að því að Agojie-stríðskonurnar tóku þátt í þrælasölu og sýndu jafnmikla eða jafnvel meiri grimmd gagnvart þrælum en kaupendurnir.

Aðalhlutverk: Viola Davis, Thuso Mbedu, Lashana Lynch, Sheila Atim, John Boyega og Hero Fiennes Tiffin

Handrit: Dana Stevens og Maria Bello.

Leikstjóri: Gina PrinceBythewood.

Tilbúin í bardaga.