Winslet var í kafi í meira en sjö mínútur

Breska leikkonan Kate Winslet lærði meðal annars að kafa án köfunarbúnaðar fyrir kvikmyndina Avatar: The Way of Water sem kemur í bíó á Íslandi 16. desember nk. Winslet fer með hlutverk Ronal í myndinni.

Lestu skemmtilegt viðtal við leikkonuna hér fyrir neðan:

Hvað var það sem heillaði þig við að vera með í Avatar: The Way of Water?

Ég elskaði fyrstu myndina. Mér fannst hún mjög kraftmikil og gríðarlega tilfinningarík. Þannig að ég var himinlifandi þegar Jim sagði við mig, “Ég vil endilega fá þig í nýju myndina.”  Það að hún gerist í vatni að stórum hluta var líka aðdráttarafl fyrir mig.  Burtséð frá öllum Titanic bröndurum þá elska ég vatn. Við búum við sjóinn og ég er alltaf á brimbretti og að busla í sjónum. Mér finnst sérstaklega gaman að vera í kafi, þannig að þegar Jim sagði: “Sko, þetta myndi krefjast þess af þér að þú lærðir að kafa án köfunartækja,” þá gerði það mig enn spenntari. Ég hef alltaf viljað læra að gera það. Þetta er ein mesta gjöf sem ég hef fengið.

Ronal við hafið.


Hver er persóna þín í myndinni og hvaða hlutverki gegnir hún í sögunni?

Ég leik Ronal, sem er Tsahik af Metkayina ættinni. Ég lýsi henni sem gyðju og leiðtoga. Hún er sú sem hugsar vel um þorpið sitt. Ronal er gift Tonowari, sem Cliff Curtis leikur, og á tvö börn, Aunong og Tsireya, sem leikin eru af hinum frábæru Filip Geljo og Bailey Bass. Ronal er full efasemda í garð Jake og Neytiri og börnum þeirra þegar þau kom að leita að griðastað fyrir fjölskylduna. Hún neyðist þó til að samþykkja þau – þ.e. að Na´vi leyfi þeim að búa hjá sér. En hún kvíðir því að Sully börnin spilli hennar eigin börnum. Börnin hennar fara nú skyndilega að hætta að hlýða mömmu og pabba í einu og öllu og byrja að brjóta reglur í fyrsta skipti, sem er mikil áskorun fyrir Ronal. Það er þessi fjölskylduhugsun sem styrkir söguna svo mikið.

Metkayina fólkið er kóralrifja fólk. Á Ronal í sérstöku sambandi við sjóinn og verurnar sem þar búa?

Já, hún hefur mikla og tæra tengingu við sjóinn. Hún á sér andlega systur sem er einskonar forsögulegur hvalur. Þær geta átt samskipti á táknmáli. Andleg systir mín semur lög og hún og Ronal syngja saman. Þannnig skapast mjög fallegar tengingar milli lífsins á landi og sjó, sem er bein tenging við okkar samtíma. Við þurfum að tengjast sjónum betur og lífverum sem þar búa.

Ronal er gyðja og leiðtogi.

Hvernig var að vinna aftur með James Cameron í fyrsta skipti síðan í Titanic?

Það var stórkostlegt. Þetta er í fyrsta sinn sem ég vinn aftur með sama leikstjóranum. Það var mjög sérstakt fyrir mig að hitta Jim á ný. Hann leggur mikið upp úr því að tengjast leikurum traustum böndum. Hann hefur leyft mér að koma með allskonar punkta um Ronal og nota í myndinni.

Jim trúir því að menn geti stundum gert yfrnáttúrulega hluti eða því sem næst. Ég þekki engan eins og hann. Hann trúir því einnig að allir geta gert meira en þeir trúa að þeir geti. Ég elska að sjá hann hvetja fólk áfram og vera óhrætt. Það hefur verið meiriháttar að fylgjast með því.

Hvernig æfingar þurftirðu að gera fyrir myndina?

Ég vildi að ég gæti sagt að ég væri ein þeirra sem hugleiddi og lifði hreinu lífi á öllum sviðum, en það er eiginlega ekki þannig, og hugleiðsla er eitthvað sem mig langar að geta gert. En þegar þú ert að kafa án köfunartækja þá ferðu í einskonar hugleiðsluástand því þú þarft að slaka vel á. Þú verður að hreinsa  hugann því þú notar meira súrefn í að halda niðri í þér andanum en að gera aðra hluti. Jafnvel ef þú hreyfir hendurnar of mikið þá notarðu of mikið af því súrefni sem þú þarft til að vera í kafi. Ég flaut um eins og einhver mannleg sækýr, og hugsaði, kannski er ég dáin, og svona er það. Kannski er ég dáin og enginn tekur eftir því, og svona er að fara á milli þessa lífs og næsta. Þetta er mjög skrýtið. Að hanga í vatninu og hugsa, “ég hef verið hérna í amk. fimm mínútur,” það er mjög skrýtið. Ég gat ekki haldið niðri í mér andanum í meira en tuttugu sekúndur áður en ég fór inn í þetta verkefni!  Metið mitt á fimmtíu prósentum – örugg blanda súrefnis þannig að þú þurfir ekki að reyna neitt sem gæti reynst hættulegt ef þú sem kafari þyrftir skyndilega að fara upp á yfirborðið án öndunartækja – var sjö mínútur og fjórtán sekúndur. Og með aðeins mínum andardrætti þá er það  þrjár mínútur og 47 sekúndur. Mér fannst það æðislegt og mjög spennandi og ég er spennt að nota þetta við aðrar aðstæður í mínu eigin lífi.

Avatar var stórmynd í öllum skilningi þess orðs. Hvers geta áhorfendur vænst af Avatar: The Way of Water?

Ég held fólk megi eigi von á að upplifa Avatar upp á nýtt – sinnum 100.