Baldvin Z og lífið í fiskabúrinu

Unglingamyndin Órói hitti heldur betur í mark hjá notendum Kvikmyndir.is, en eins og margir ættu að muna héldum við á síðasta ári verðlaunahátíð í samstarfi við Myndir mánaðarins þar sem áhorfendur kusu sínar uppáhaldsmyndir frá árinu áður. Órói hreppti öll íslensku verðlaunin, þar á meðal fyrir bestu myndina og bestu leikstjórnina.

Leikstjóri Óróa, Baldvin Z (sem hefur einnig verið að gera það gott sem framleiðandi Hæ Gosa og einn af handritshöfundum Skaupsins í fyrra) er loksins kominn í gang með nýja bíómynd sem er enn á forvinnslustigi, en hefur hlotið íslenska heitið Vonarstræti.

Vonarstræti fjallar um þrjá einstaklinga sem allir standa frammi fyrir stórum ákvörðunum í lífi sínu: Móri (leikinn af Þorsteini Bachmann) er fyllibytta og rithöfundur sem hefur nýlokið við að skrifa sjálfævisögu sína. Hann berst við fortíðardrauga í leit að fyrirgefningu við hinu ófyrirgefanlega.
Eik (Hera Hilmars) er ung móðir og leikskólakennari sem er flækt inn í vændi til að geta séð fyrir sér og dóttir sinni.
Sölvi (Þorvaldur Davíð) er frægur fyrrum knattspyrnumaður sem virðist vera á réttri leið í viðskiptaheiminum áður en allt fer til helvítis.
Hún gerist í Reykjavík árið 2006

Titill myndarinnar á ensku er Life in a Fishbowl og kvikmyndagerðarmaðurinn tjáði sig örstutt við Kvikmyndir.is um þetta forvitnilega verkefni.

Hugmyndin kviknaði á meðan ég var að gera Óróa, mig langaði að fara alla leið í að gera svona „fléttu mynd.“  Ég er sjálfur mikill aðdáandi Alejandro González Inarritu,“ segir Baldvin spurður að því hvernig myndin varð upphaflega til.
„Í Óróa eru sagðar 3 sögur en saga Gabríels leiðir sögurnar. Í þessari mynd þá eru þetta þrjár aðskildar sögur, ekkert nýtt af nálinni þar, en sögurnar eru mjög sterkar og uppbyggingin skemmtileg.“

Leikstjórinn segist hafa setið fastur með þessa hugmynd í tvö ár þangað til hann hitti Birgi Örn Steinarsson (Bigga Maus) og sagði honum frá henni. „Ein sagan var á góðum stað en ég gat ekki klárað hinar tvær. Hann réðist á þær og gerði synopsis og mér leist svo vel á það að við réðumst á þetta í samvinnu og úr varð þetta handrit,“ segir Baldvin.

Undirritaður spurði Baldvin um hvernig tóni megi búast við og hvort það fylgi einhver pressa því að fylgja eftir bíómynd sem áhorfendur tóku svona vel í. „Tónninn verður ekki ósvipaður og í Óróa, svona lágstemmdur realismi. Ég hef oft dottið í að hugsa um það, hvernig ég fylgi henni eftir… en þetta er ekki spurning um það,“ segir hann.

„Ég klippti algerlega á naflastrenginn við hana og byrjaði bara algerlega upp á nýtt. Í þessi tvö ár sem ég var að burðast með þessa hugmynd fékk ég mörg handrit send, ég var að leita að hinu fullkomna handriti. Ég varð að gera eitthvað sem myndi toppa Óróa, en þegar ég klippti á þá gat ég sest niður og skrifað mitt eigið aftur. Það er hinsvegar gott að geta tekið úr reynslubankanum, úr Óróa í þessa og ég vona að það styrki mig sem kvikmyndagerðarmann. Ég finn ekki fyrir pressu, bara spennu og hún verður mikil áskorun. Við erum að fjalla um mjög viðkvæma hluti á mjög opinskáan hátt.“

Baldvin segir einnig að titlarnir séu mjög útpældir, og tekur fram að gatan Vonarstræti í miðbænum komi mikið við sögu í myndinni. „Life in a fishbowl er svo bókin sem Móri er að skrifa í myndinni, eða lífið í fiskabúrinu, sem er reyndar smá reffi í Bigga, sem er bara skemmtilegt,“ segir hann.

Vonarstræti/Life in a Fishbowl fer í tökur í janúar á næsta ári.