Fullt hús: Úr „Að duga eða drepast“ yfir í „Þetta reddast“ 

Tómas Valgeirsson skrifar:


Lífið er soddan farsi, samspil og samansafn reddinga. Í skemmtibransanum er svona atburðarás oft kennd við það að hrista bara af sér hindranirnar og „halda áfram með sjóið,“ sama hvað, sem er nokkurn veginn kjarninn í gamanmyndinni Fullt hús, þar sem Sigurjón Kjartansson sér um handrit og sest í leikstjórastólinn.

Verkefnið er löngu tímabært fyrir Sigurjón sem hefur til fjölda ára sýnt ómælda kómíska hæfni (og já, fjórða sería Fóstbræðra skýst að sjálfsögðu þar efst upp í hugann). Þegar svona vel tekst til kviknar óneitanlega löngun í meira sambærilegt íslenskt efni.

Fullt hús segir í stuttu máli frá lúinni kammersveit Gamla bíós sem lendir í tilvistarkreppu þegar opinber styrkur hópsins er í húfi. Það gæti orðið furðulegt lán í óláni þegar heimsfrægur (en fjölþreifinn…) sellóleikari snýr aftur til landsins eftir langa fjarveru og endar með undraverðum hætti í þessari sömu kammersveit. Við fyrstu sýn gæti þessi þróun reynst vera einmitt sú vítamínsprauta sem sveitin hefur þurft á að halda, en fyrr en varir fara önnur vandamál að dúkka upp með heimsþekkta meinta snillingnum. Sveitinni hefur að vísu lengi dreymt um að spila fyrir fullu húsi í sal og loksins þegar stefnir í að það verði að veruleika bíða sveitarinnar einhverjir mest krefjandi tónleikar fyrr og síðar. [Taka skal fram að trailerinn fyrir myndina spillir atburðarásina í drasl, en þar sem undirritaður horfði aldrei á hann skal láta á reyna að tala í kringum helstu tvista] 

Ef andstyggðin og geðveikin er strípuð frá má segja að þetta sé glettin og upplífgandi dæmisaga um hvað gott teymi getur afrekað á örlagastund þegar allir snúa bökum saman í heljarinnar stressi, jafnvel aðdáunarverðri þrjósku. Ef ekki er þetta þá allavega stórfyndið dæmi um hversu langt er hægt að fara með hið klassíska „þetta reddast“ hugarfar Íslendinga. 

Það er eitthvað svo gefandi fyrir sálina að fá að fylgjast með hópi elskulegra, meingallaðra aulabárða leggja höfuð í bleyti, keyra allt á þrjóskunni, reyna að redda málunum með því að slökkva elda eða finna lausnir í (og einnig út af) álaginu með sameiginlegan sigur að markmiði. Ef ekkert annað má lesa úr þessu þá má sjá í þessu allegoríu fyrir listahóp með framtíð sína í húfi sem leggur allt undir með því að taka asnalega stóra áhættu.

Annaðhvort stefnir allt í algjöra katastrófu eða eitthvað kraftaverk kemur kammersveitinni í gegnum fáránleikann. Þá er í raun bara spurning hvort handrit Sigurjóns hafi þorað alla leið með prakkaraskap sinn eða hvort allt leysist upp í klisjukennda boðskapssögu þar sem gjörðir lykilpersóna eru dæmdar eða fordæmdar. Ætli Sigurjón hafi landað þessu eða valið öruggari leiðina? 

Spurningunni er auðsvarað án þess að draga upp neina spilla en staðreyndin er að leikið er á köflum bráðskemmtilega á væntingar áhorfenda. Eftirmálinn er allavega frábær og kemur úr óvæntari átt en reikna mátti með. 

Karakterar sögunnar eru einfaldir en vel mótaðir. Flestir eru annaðhvort með mjög sterkan persónuleika eða að góðum leikurum myndarinnar tekst að gæða þá mun meira lífi en pappírinn býður upp á. Helga Braga, Halldór Gylfa, Hannes ÓliVivian Ólafs, Gói og Ilmur Kristjáns eru öll með tölu stórskemmtileg þó sviðsljósið deilist misjafnlega á milli hvers og eins. Hópdýnamíkin, orkan og samspilssprellið hjá þessu liði heldur sér frussufyndnu út í gegn.

Hilmir Snær fer á kostum sem karakter með sjálfhverfu og blinda greddu í hámarki. Edda Björg, Jón Gnarr, Unnur Ösp og Eggert Þorleifs stela jafnframt senunni en Sveppi kemst næst því að hlaupa burt með alla myndina. Hann hefur sjaldan verið jafn fyndinn í bíómynd.

Eitt trikk við það að útbúa eðalfarsa er að þeir geta oft oltið á því hvort áhorfandinn raunverulega kaupi heimsku sumra persóna til að hamagangurinn gangi sem best upp. Það gerist að vísu í (undarlega spennuþrungna) lokaþriðjung þessarar myndar þegar við þurfum einmitt að kyngja ansi hörðum lógíkbresti, nánar tiltekið út frá áhorfendunum í salnum. Það er eitt dæmi um það þegar helsti blekkingarvefur framvindunnar fer að virka en erfitt er að ímynda sér heilvita manneskjur gleypa við því. Flestir hafa svo sem séð verri trúverðugleikabresti í íslenskum kvikmyndum sem taka sig alvarlega út í gegn, svo þetta er fyrirgefið.

Talandi um smáhnökra; því minna sem er fylgst með gripum leikara á hljóðfærum í samræmi við tónlist, því betra.

Fullt hús tekur sig blessunarlega NÚLL alvarlega, annað en tær meirihluti íslenskra mynda og er það fagnaðarefni. Aðstæður eru ekki alltaf trúverðugar (og þurfa heldur ekki að vera það ef gamanið helst) en það góða er að persónurnar búa yfir trúverðugleika; lykilkarakterar eru jarðbundnir, eðlilegir og – enn fremur – mjög svo ‘íslenskir’ í hegðun og hugarfari. 

Í styttra máli:
Hresst, bratt og húrrandi gott sprell þar sem reyndur leikhópur sýnir sínar betri hliðar í gríninu.