Áður en The Dark Knight Rises hóf tökur vann Christian Bale að allt öðruvísi mynd, The Flowers of War. Myndin er eftir Zhang Yimou, leikstjóra Hero og Raise the Red Lantern, og er sögulegt drama byggt á bókinni The Thirtenn Women of Nanjing eftir Yan Geling. Myndin gerist árið 1937 í innrás Japana inn í Nanjing héraði þar sem harmleikur sem kallast nú „The Nanking Massacre“ átti sér stað, þar sem kínverskir uppgjafarhermenn og almennir borgarar voru stráfelldir, og tugum þúsunda kvenna var nauðgað. Bale leikur John Haufman, amerískan útfararstjóra sem kemur til þess að sjá um greftrun prestsins í borginni. Hann tekur svo upp prestskuflinn og reynir að gera sitt besta til að bjarga almennum borgurum, og stúlknaskóla sem kirkjan rak á svæðinu.
Myndin kemur út í desember í Kína, og verður framlag landsins til óskarsverðlauna næsta árs. Ekki hefur dreifingaraðili tryggt sér myndina í Bandaríkjunum, né hér á landi. Um 40% myndarinnar er sögð vera á ensku, og rest á kínversku. Myndin kostaði um 90 milljónir Bandaríkjadala, og er dýrasta mynd kínverja hingað til.