Framleiðslufyrirtækið A24, sem bjó til hrollvekjuna Hereditary, sem nú er sýnd í bíó hérlendis við góðan orðstír, hefur nú “sannað” með vísindalegum hætti að myndin, sem er í leikstjórn Ari Aster, sé hræðilegasta mynd ársins.
Fyrirtækið setti sig í samband við 20 bíógesti sem allir fengu Apple úr á úlnliðinn til að hægt væri að fylgjast með hjartslætti þeirra á meðan á áhorfi á myndina stæði. Niðurstöðurnar voru svo færðar inn á línuritið sem sjá má hér neðar á síðunni.
Í hnotskurn þá voru niðurstöðurnar á þá leið að hjartsláttur meðal mannnsins er á milli 60 – 80 slög á mínútu þegar hann er í hvíldarstöðu. Í hræðilegustu atriðum Hereditary, stökk hjartsláttur bíógestanna hinsvegar upp í 160 slög á mínútu!
Söguþráður myndarinnar er í stuttu máli þessi: Þegar móðir Annie Graham deyr virðist dauði hennar um leið leysa úr læðingi einhvers konar álög sem hvílt hafa á Grahamfjölskyldunni um langt skeið og hvorki Annie né eiginmaður hennar, Peter, hvað þá börn þeirra tvö, Steve og Charlie, hafa hugmynd um hvernig eigi að bregðast við. Hvað geta þau gert?…
Rannsóknin var framkvæmd í júní sl. Myndin er tvær klukkustundir og sjö mínútur að lengd, en Aster ljóstraði því upp í viðtölum fyrir frumsýningu að fyrsta útgáfa myndarinnar hafi verið meira en þriggja tíma löng. Hjartveikir hefðu líklega ekki þolað slíka meðferð.