Ég fór með fjölskyldunni í bíó með von um góða skemmtun. Myndin fly me to the moon er gerð í 3D tækni sem kemur skemmtilega á óvart og börnin kunna greinilega að meta það. Tæknilega er myndin flott en handritið og söguþráðurinn er því miður lélegt. Myndin fjallar í stuttu máli um þrjá vini sem eru flugur og komast í ævintýraferð til tunglsins með geimfarinu Appollo 11 árið 1969. Söguþráðurinn er slappur, oft langdregin og lítið er um skemmtun. Virðist sem aðáhersla er lögð á geimferðina sjálfa og þá stund er Bandaríkjamenn stigu á tunglið. Sögupersónurnar fá ekki nægt svigrúm. Persónusköpun er engin og er meiri áhersla lögð á mikilfengleg tækniatriði í kringum geimferðina. Halda mætti að myndin sé gerð af vísindamönnum NASA en ekki skapandi fólki. Allavega er myndin örugglega kostuð af Bandarískum stjórnvöldum og ber þess augljóslega keim er maður rýnir í boðskapin, sem er slæmur. Hvítir Bandaríkjamenn eru bestir, Rússar og annað fólk eru vondir,ljótir og heimskir. Myndin er uppfull af slæmum boðskap og rasisma og er tæplega við hæfi barna. Það tók alveg steinin úr þegar einn NASA geimfarinn ákvað að þyrma lífi flugnana þriggja því þær væru bandarískar! Væru þær annars réttdræpar? Er þetta boðskapurinn til barnanna? Einnig kemur fram í myndinni að einn flugna vinurinn er feitur og frekar heimskur! Hann er alltaf svangur og hann verður þeim næstum að bana út af offitu sinni. Hann lofar vinum sínum að fara í megrun. Þessi mynd virðist vera framleidd einungis til að ala á þjóðernishyggju Bandaríkjana og að ná til barna og koma þeim skilaboðum inn að Bandaríkjamenn hafi verið fyrstir til tunglsins og þeir séu mestir og bestir. Og til að taka af allan vafa þá kemur í lokin á myndinni fram gamall geimfari frá NASA með Bandaríska fánan í bakgrunn og tjáir okkur það að í þessari geimferð til tunglsins hafi ekkert farið úrskeiðis og að aðskotahlutir eins og flugur væru ekki samboðnar í geimferðum hjá NASA. Þannig að lítil virðing er borinn fyrir sögupersónunum í lokin. Og það alveg furðulegt að þetta sé lagt á borð sem barnaefni með þessum þvílíka áróðri og duldum boðskap.
Að lokum... Eina dýptin í þessari mynd er þrívíddartæknin þó er hún aðeins tálsýn alveg eins og myndin sjálf. Ég gef þessari mynd 0 stjörnur
Jónas Björgvinsson