Jessica Chastain, sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í Zero Dark Thirty, og sást nú síðast í hrollvekjunni Mama, sem frumsýnd verður á Íslandi 10. maí nk., ætlar að leika í mynd Guillermo del Toro, Crimson Peak.
Del Toro var einmitt framleiðandi Mama.
Del Toro er um þessar mundir að sanka að sér leikurum fyrir myndina, sem er hugsuð sem eins konar hylling til mynda eins og The Haunting og The Innocents. „Ég hef alltaf reynt að búa til stórar hrollvekjur eins og þær sem ég ólst upp við að horfa á,“ sagði leikstjórinn við Deadline vefsíðuna, þegar fyrst var tilkynnt um gerð Crimson Peak.
„Ég held að fólk sé að verða vant því nú til dags að hrollvekjur séu allar gerðar eins og úr fundnu efni eða með litlu framleiðslufé, eins og í B-myndum. Ég vildi að þessi mynd snéri þessari þróun við.“
Aðrir leikarar sem del Toro er búinn að ráða í myndina eru þau Emma Stone, Charlie Hunnam og Star Trek illmennið Benedict Cumberbatch.
Samkvæmt frétt The Hollywood Reporter þá snýst myndin amk. að hluta til um konu sem uppgötvar að maður hennar er ekki sá sem hann segist vera, en ekkert er vitað enn hver muni leika hvaða persónu í myndinni.
Guillermo skrifaði handritið sjálfur með félaga sínum Matthew Robbins og Lucinda Coxon hefur einnig lagt hönd á plóg á seinni stigum. Tökur eiga að hefjast í febrúar á næsta ári.
Í millitíðinni mun Chastain sjást í The Disappearance Of Eleanor Rigby His and Hers ásamt James McAvoy, ásamt því sem hún er við tökur á Miss Julie sem stendur ásamt Colin Farrell.