Bandaríska streymisveitan HBO Max, sem er í eigu afþreyingarrisans Warner Bros. Discovery, hóf göngu sína á Íslandi fyrr í þessari viku og bætist þar með í flóru sambærilegra alþjóðlegra veitna sem aðgengilegar eru hérlendis, eins og Netflix, Viaplay og Disney +.
Áhorfendur horft á veituna beint í gegnum vefsíðuna hbomax.com eða í appi en einnig hafa viðskiptavinir Símans aðgengi að Standard útgáfu veitunnar frá og með september nk. í gegnum sérstakan samning.
Í tilkynningu frá Símanum segir að Sjónvarp Símans hafi verið heimili HBO síðustu ár og sýnt valdar þáttaraðir úr heimi streymisveitunnar, en nú sé samstarfið eflt til muna. Í því felist að HBO Max verður innifalin í Sjónvarpi Símans Premium og geta viðskiptavinir Símans nýtt sér HBO Max-appið til að horfa á allt það efni sem þar er að finna.
Áfram verður einnig boðið upp á valið gæðaefni frá HBO inni í Sjónvarpi Símans Premium samkvæmt tilkynningunni.
Fjórða stærsta veitan
HBO Max fór í gang upphaflega í Bandaríkjunum 27. maí 2020. HBO er fjórða vinsælasta áskriftarstreymisveitan í heiminum með 117 milljónir áskrifenda.
Eins og fram kemur á vef HBO Max kostar hefðbundin áskrift 12,99 evrur, eða 1.850 krónur á mánuði. Innifalið er streymi á tveimur tækjum í einu, háskerpumyndgæði og 30 niðurhöl til að skoða án
nettengingar.
Dýrari áskriftin, Premium, kostar 18,99 evrur á mánuði eða 2.700 krónur. Innifalið í henni eru streymi á fjórum tækjum í einu, 4K ultra háskerpa, Dolby Atmos hljómgæði og 100 niðurhöl til að skoða án
nettengingar.
Game of Thrones og The White Lotus
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir af efninu sem er í boði. Þar má nefna rómaðar sjónvarpsþáttaraðir eins og Game of Thrones, Dune: Prophecy, The Last of Us, The White Lotus, Big Little Lies, The Pitt og úrval raunveruleikasjónvarpsraða, kvikmynda og heimildaþátta auk íþróttaefnis og barnaefnis eins og Batwheels, Teen Titans Go! og The Amazing World of Gumball.
Einnig eru í boði nýir þættir af Peacemaker og Rick and Morty. Þá ríkir einnig mikil eftirvænting eftir Task og IT: Welcome to Derry sem stutt er í samkvæmt tilkynningu frá HBO Max.







