Fyrsta opinbera myndin af Angelina Jolie sem illmennið Maleficent hefur verið opinberuð. Fyrir þá sem ekki vita er Maleficent illmennið í ævintýrinu um Þyrnirós, en Disney eru að vinna í því þessa stundina að endursegja ævintýrið sem flestir ættu að kannast við úr æsku. Myndina, ásamt samanburði við upprunalegu Maleficent frá 1959, má sjá hér fyrir neðan.
Maleficent kallar sjálfa sig The Mistress of all Evil og eins og flestir muna vonandi úr upprunalegu sögunni þá reiðist hún vegna þess að henni var ekki boðið í skírn Þyrnirósar. Því ákveður hún að leggja bölvun á Þyrnirós þess efnis að hún muni stinga sig á nál og deyja áður en hún verður sextán ára gömul. Restina kunna allir.
Maleficent kemur út í 3-D í mars 2014 og einblínir nánast eingöngu á myrku hliðina af Þyrnirósarævintýrinu, og þá helst á ævi Maleficent á meðan að upprunalega sagan um Þyrnirós mætir afgangi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Disney gerir mynd byggða á Þyrnirósarævintýrinu, en upprunalega myndin um Þyrnirós kom út árið 1959.
Elle Fanning, Juno Temple, Brendon Thwaites, Sharlto Copley og Miranda Richardson leika einnig í myndinni. Jolie hefur sinnt móðurhlutverkinu undanfarin tvö ár og því verið að mestu fjarri hvíta tjaldinu. Mér finnst hún samt vera fullkomin í þetta hlutverk og það verður áhugavert að sjá hvort henni takist að tækla þetta almennilega. Kannski einhverjir Disney nördar hafi sterkari skoðun á þessu en ég ?