Þessi grein birtist fyrst í ágústhefti Mynda mánaðarins.
Mafíuforingi sem kjaftar frá um lifibrauð félaga sinna neyðist til að sækja um vitnavernd leyniþjónustunnar og er ásamt eiginkonu sinni og börnum fluttur til lítils bæjar í Frakklandi þar sem fjölskyldan á heldur betur eftir að láta til sín taka.
The Family er nýjasta mynd leikstjórans Lucs Besson sem skrifar sjálfur handritið og framleiðir ásamt Martin Scorsese. Myndin er byggð á bókinni Malavita eftir franska rithöfundinn Tonino Benacquista, en hún kom út á ensku árið 2010 undir heitinu
Badfellas. Tonino hefur um árabil notið mikilla vinsælda í heimalandinu fyrir bækur sínar og teiknimyndasögur og hlaut þess utan frönsku César-verðlaunin fyrir handrit sín að myndunum De battre mon coeur s’est arrêté (The Beat That My Heart Skipped) og Sur
mes lèvres (Read My Lips).
Hér er um að ræða svarta kómedíu og fjallar myndin eins og áður sagði um mafíuforingja einn, Giovanni Manzoni (Robert DeNiro), sem gerist heldur lausmáll og fer fyrir vikið á dauðalista mafíunnar. Til að bjarga málunum gengur hann til liðs við vitnavernd alríkislögreglunnar þar sem leyniþjónustumaðurinn Stansfield (Tommy Lee Jones) fær það vanþakkláta hlutverk að finna honum og fjölskyldu hans skjól. Það gengur fremur brösuglega, enda er mafían með menn á hverju strái, uns ákveðið er að senda fjölskylduna með mikilli leynd til lítils bæjar í afskekktu héraði í Frakklandi. Vandamálið er að þótt Giovanni og fjölskylda hans, eiginkonan Maggie (Michelle Pfeiffer) og börnin tvö, þau Bella og Warren (Dianna Agron og John D’Leo), hafi verið gerð brottræk úr mafíunni þá verður mafían ekki svo auðveldlega rekin úr þeim. Innan fárra daga í frönsku kyrrðinni hafa þau öll, hvert á sinn hátt, gert einhvern makalausan óskunda í bænum þannig að enn á ný er vesalings Stansfield kominn í hin mestu vandræði við að halda í þeim lífinu.
The Family er á dagskrá í september og það er óhætt að mæla með bráðfyndinni stiklunni.